Fara í efni

Foringjarnir með hjarðir sínar

Margt misjafnt hefur verið sagt um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur eftir að hún afréð að taka 5. sætið á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður sem leiddi til þess að hún varð að segja af sér embætti borgarstjóra. Þar á meðal hefur hún verið sökuð um svik við kjósendur og samstarfsaðila í borgarstjórn. Þá hafa menn velt fyrir sér öðrum og ómerkilegri hlutum eins og t.a.m. þeim að hún hafi misreiknað sig og glatað borgarstjórastólnum í einhverjum flumbrugangi. Komið hafi í ljós að hún kunni lítið í þeirri refskák sem hinir “klóku stjórnmálaforingjar” tefla blindandi. 

“Hún er lúser, hún er lúser”, sagði prakkarinn Pétur Blöndal þingmaður á Stöð 2 á þrettándanum. E.t.v. var það kornið sem fyllti mælinn hjá Einari Kárasyni rithöfundi. Föstudaginn 10. janúar s.l. birtist eftir hann í Morgunblaðinu greinin “Stöðumat og herkænska” þar sem hann snýst til varnar Ingibjörgu Sólrúnu í þeim tilgangi að sýna fram á ótvíræða foringjahæfileika hennar. Greinin varpar skýru ljósi á þau foringjastjórnmál sem nú er reynt að innleiða af meiri krafti en nokkru sinni. Þá segir nafn greinarinnar sína sögu og efnið er því marki brennt hvernig hollustan við foringjann verður til þess að menn tapa sér algerlega þegar hann er annars vegar – missa allt veruleikaskyn, komast í vímu. Málefni gleymast, staðreyndir og sögulegt samhengi glatast. Öll virðing er bundin leiðtoganum og valdinu en málsvarar minnihlutahópa eru í besta falli taldir einskis verðar fígúrur. 

Ingibjörg á Alþingi 

Einar stiklar hratt yfir pólitískan feril Ingibjargar Sólrúnar, fyrst sem borgarfulltrúa og síðan þingmanns. Sem þingmaður hafi hún strax vakið mikla athygli fyrir óumdeilanlega hæfileika, jafnt meðal samherja, andstæðinga og áhugafólks um stjórnmál. Þetta er rétt nema að því leyti að Ingibjörg vakti miklu fyrr athygli en árið 1991 þegar hún settist á þing fyrir Kvennalistann. Í hlutverki borgarfulltrúa fyrir Kvennaframboðið og síðan Kvennalistann á 9. áratugnum fór ekki á milli mála að hún var öflugur málsvari hinnar lýðræðislegu kvennahreyfingar sem sett hafði gamla flokkakerfið í uppnám. Einar nefnir ekki þennan bakgrunn borgarstjóra - hreyfinguna sem jafnan barðist gegn öllu flokksræði og kaus sér ekki einu sinni formann. En kannski er best að breiða yfir svona nokkuð þegar oss er foringi fæddur. 

En hvað gerðist árið 1991 þegar Ingibjörg tók sæti á Alþingi? Einar segir: 

“Menn þóttust sjá að þarna væri kominn fram á sjónarsviðið stjórnmálamaður í stóru broti: pólitíkus með alvöru leiðtogahæfileika. Svona þykist fólk stundum greina í fari byrjenda á stjórnmálasviðinu; það gerist ekki oft hér á landi, helst mætti kannski rifja upp það þegar Davíð Oddsson eða Ólafur Ragnar Grímsson komu fyrst fram á sjónarsviðið.” 

Hér gægist Einar í gegnum nálarauga, sér bara tvo álíka byrjendur og önnur tilnefningin er umdeilanleg. Þannig er engan veginn ljóst af hverju hann stillir Ólafi við hlið Davíðs formanns, e.t.v. er það bara til að ergja sjálfstæðismenn. En víkur nú sögunni að borgarstjórn Reykjavíkur. 

Aumingjar í borgarstjórn 

Seint verður sagt að hún sé glæsileg myndin sem Einar dregur upp af minnihluta borgarstjórnar í valdatíð sjálfstæðismanna: “fyrir um það bil áratug ... var ástandið þannig í borgarstjórn Reykjavíkur að þar ráfuðu um í þoku áhrifa- og valdaleysis borgarfulltrúar þriggja eða fjögurra miðju- og vinstriflokka, og höfðu gert næstum samfleytt í hálfa öld! Að vera í borgarstjórn fyrir minnihlutaflokkana þótti raunar fremur lítið eftirsóknarverð staða; Sjálfstæðismenn höfðu öll völd, þeir þurftu ekkert að hafa hina með í ráðum og gerðu það sjaldnast; hin síðari ár sáust þeir helst þegar Davíð borgarstjóri hafði þá með eins og einhverjar grínfígúrur, hann vantaði einhvern til að geta beint bröndurum sínum að”. 

Hvergi kemur fram að Ingibjörg Sólrún sat í borgarstjórn 1982-1988, eða á sama tíma og Davíð Oddsson var upp á sitt besta en hann vermdi borgarstjórastólinn 1982-1991. Því er eðlilegt að spyrja; var leiðtoginn Ingibjörg grínfígúra hans í 6 ár? Og hvað með annað gott fólk sem sat í bæjar- og borgarstjórn á nánast samfelldum valdatíma Sjálfstæðisflokksins frá 1930? Ráfaði það allt í þoku og tilgangsleysi, ef frá eru talin árin 1978-1982 þegar Alþýðubandalag, Alþýðu- og Framsóknarflokkur felldu meirihluta sjálfstæðismanna og Einar gleymir að nefna. Sviðsetning hans er með ólíkindum – e.t.v. vegna þess að hann og ýmsir aðrir, sem nú eru helteknir af foringjastjórnmálunum, virðast telja að minnihlutaöfl séu einskis nýt í lýðræðissamfélagi. Og er þá lítið eftir af því stjórnskipulagi sem við höfum hingað til talið henta best. 

Sólrún á Sigurhæðum 

Höldum áfram með ævintýrið hans Einars. Eftir áratuga eyðimerkurgöngu gerðust þau undur upp úr 1990 að það kviknaði á perunni hjá minnihluta borgarstjórnar. Menn uppgötvuðu að þeir yrðu að tefla fram “einhverjum alvöru stjórnmálaskörungi gegn frægum og vinsælum borgarstjórum sjálfstæðismanna.” Og skörungurinn fannst á Alþingi. Framsóknar- og vinstrimenn fólu Ingibjörgu Sólrúnu að leiða sig út úr þokunni. Hún tók baráttusætið 1994, aftur 1998 og nú síðast 2002. Allir vita hvernig fór, þetta var samfelld sigurför. Enn er sagan ónákvæm en plássið leyfir ekki að tæpa nema á einu atriði. Fáeinum mánuðum fyrir kosningarnar 1994 fóru sjálfstæðismenn á taugum vegna óhagstæðra skoðanakannanna og völdu sér nýjan borgarstjóra, Árna Sigfússon. Verður Árna seint skipað á bekk með “frægum og vinsælum borgarstjórum” flokksins. Til þess að öðlast þann sess hafði hann engan tíma.

Athyglisverð er sú niðurstaða Einars að Ingibjörg Sólrún hefði ekkert þurft á stuðningi vinstri grænna og framsóknarmanna að halda, a.m.k. í síðustu kosningum, hún hefði getað sigrað ein og óstudd með Samfylkingunni. Eða hvernig unnust sigrarnir, spyr Einar. Þeir unnust m.a. með því að stöðugt var keyrt á vinsældum borgarstjórans, einkum þegar nær dró kosningum eða ef skoðanakannanir sýndu að bilið milli fylkinganna minnkaði. Og mættu “ýmsir sem nú tala um hana sem svikara og virðast halda að hún hefði aldrei náð völdum nema í þeirra umboði, rifja upp áróðurstækni” R-listans. En í framhaldinu má spyrja; af hverju voru þá Ingibjörg og Samfylkingin að draga aðra flokka með sér í framboðið? Sjálfstæðisflokkurinn var kjöldreginn og sigurgangan var, að sögn Einars, fyrst og fremst Ingibjörgu Sólrúnu að þakka. Vinnubrögð R-listans, að hampa vinsælum borgarstjóra, voru hins vegar engin nýmæli í borgarstjórnarkosningum. Slíkt höfðu sjálfstæðismenn stundað með góðum árangri í áratugi. Og aðferðin sú skilar oftast einhverju fylgi en of mikil persónupólitík á kostnað málefnanna er afar hæpin og varhugaverð fyrir lýðræðið. 

Senn kemur Sólrún aftur 

Þessu næst tekst Einar það verkefni á hendur að skýra fyrir okkur hvers vegna við gátum ekki ætlast til að Sólrún sæti á borgarstjórastóli til eilífðar. Ferst honum verkið óhönduglega úr hendi. Það átti auðvitað “að blasa við flestu hugsandi fólki” að samflotinu “undir hennar forystu hlyti senn að linna. Ætti hún til dæmis að bjóða sig fram til borgarstjóra að þremur árum liðnum?” Nei, slík “slímuseta í sama embættinu getur varla talist heppileg”. Einar talar um “hugsandi” fólk og gefur sér það þá að sumt fólk og jafnvel ansi margt hugsi alls ekki. Flestu “hugsandi” fólki átti að vera ljóst að forystu Sólrúnar hlyti “senn” að ljúka. En orðið “senn” getur aldrei spannað 4 ár af t.a.m. 8. Borgarstjóri lýsti því ítrekað yfir fyrir kosningar að hún væri ekki á leið í landsmálapólitík, hún byði sig fram sem borgarstjóra til næstu fjögurra ára. Voru þá kjósendur R-listans, að teknu tilliti til meintra vinsælda hennar, ekki “hugsandi” fólk? Voru bara sumir “hugsandi” og þ.á m. þeir sjálfstæðismenn sem þráspurðu borgarstjóra um hugsanlega þátttöku hennar í stjórnmálum á landsvísu. Því miður angar málflutningur Einars af yfirlætislegri forræðishyggju í garð almennings, hann virðist hafa blindast af stjórnlausri foringjadýrkun sem getur auðveldlega, eins og glöggt má sjá, leitt “hugsandi” menn út á vafasamar brautir. 

Einar dregur ekki af sér og segir að það sé “almennt viðhorf meðal alls þorra almennings” að þörf sé fyrir krafta Sólrúnar á landsvísu. Fyrir þessu eru raunar engar heimildir. En áfram skal haldið með vinsældir borgarstjóra og varamannssætið á þingi. Einar segir að í þessu ljósi hefði nú “mátt ætla að samstarfsmennirnir í borgarstjórn sýndu þá stórmennsku að umbera hugmyndir hennar um að fara að fikra sig í átt til landsmálanna með því að stefna á varaþingmennsku næstu árin, á meðan hún lyki ferli sínum sem borgarstjóri.” Hér tekst Einari einstaklega illa að bera blak af foringjanum. Ætlast hann í alvöru til að einhver trúi því að jafn reyndur stjórnmálamaður og Ingibjörg, borgarfulltrúi 1982-1988, þingkona 1991-1994 og borgarstjóri frá 1994, hafi þurft að fikra sig inn í landsmálin með varaþingmennsku eina að markmiði? 

Á sigurbraut í nýjum stól 

Einar telur mikilvægt að nýta styrk borgarstjórans í komandi kosningum, þótt ekki væri nema til þess að koma í veg fyrir að “sama klíkan nái öllum völdum í landsmálunum, fjórða kjörtímabilið í röð!” Ekki getur hann þess að hrygglengjan í Samfylkingunni, Alþýðuflokkurinn sálugi, sat í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum fyrsta kjörtímabilið af umræddum þremur, eða 1991-1995. En hvað um það, Ingibjörg Sólrún svaraði kalli fjöldans um að koma “klíkunni” frá, “ákvað að taka slaginn” þótt það “kostaði hana embætti sitt og starf.” Hún tók 5.sætið, raunar að eigin sögn - en ekki Einars - til að halda hagsmunum Reykvíkinga á lofti. En það er önnur saga. 

Atburðarásin hefur verið hröð og óvægin en nú er komið að Samfylkingunni að nýta hæfileika fráfarandi borgarstjóra. Og Einar er þess fullviss að hún hljóti verðugan sess. Ástæðulaust sé að ætla annað en “formaðurinn og hans nánustu samverkamenn muni sýna þá herkænsku að setja hana framar en á varamannabekk” því það sem mestu máli skipti sé að vinna þannig sigur í vor “að afgerandi breyting verði á landslagi íslenskra stjórnvalda.” Herkænskan hefur gengið eftir en sigurinn er þó enn ekki í höfn enda verður víst ekki kosið fyrr en í maí. 

Ingibjörg hefur nú þegar verið útnefnd leiðtogi og forsætisráðherraefni fylkingarinnar af fámennri “klíku”. Og Einar hlýtur að vera glaður, hann óskar sér jú að afgerandi breyting verði á landslagi íslenskra “stjórnvalda”. Með þessu orðavali afhjúpar hann enn og aftur þá foringjadýrkun sem svífur yfir vötnunum. Hugtök eins og stjórnmál og stjórnvöld renna saman í eitt. Persónur skipta öllu og flest vitum við að Ingibjörg Sólrún hefur annað vaxtarlag en Davíð og því mun landslag æðstu stjórnvalda breytast verulega ef hún verður næsti forsætisráðherra. En fyrir hvaða stefnu mun hún og Samfylkingin standa? Ljóst er að stefnan er keimlík þeirri sem núverandi ríkisstjórn hefur fylgt. Eina fyrirsjáanlega breytingin eru því ný andlit og annað vaxtarlag á ráðherraliðinu. Engar grundvallarbreytingar verða hins vegar á ríkjandi stefnu í málefnum þjóðarinnar nema því aðeins að næsta ríkisstjórn njóti öruggrar handleiðslu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem býður landsmönnum upp á skýra vinstristefnu og skipar í öndvegi málefnum félagshyggju, réttlætis, lýðræðis og umhverfisverndar. 

Verður einhver lúser? 

Hér skal tekið undir það að Ingibjörg Sólrún er enginn “lúser”. Hún á að baki merkilegan feril og án efa eru spennandi verkefni á næsta leiti, hvort sem hún verður forsætisráðherra eða leiðtogi og formaður Samfylkingarinnar í stjórnarandstöðu. Og enginn skyldi saka hana um að hún kunni ekki refskák. Henni tókst t.a.m. að ráða því hver yrði eftirmaður sinn á borgarstjórastóli og kom þannig í veg fyrir að vinstri grænir eða framsóknarmenn eignuðust vinsælan borgarstjóra sem gæti e.t.v. lyft fylgi þeirra upp á landsvísu um 2-3% til skamms tíma. Atburðarásin í kringum jól og áramót, þegar Ingibjörg tapaði stólnum, þótti klaufaleg og viðvaningsleg af hennar hálfu og Össurar. Af því drógu menn þá ályktun að borgarstjóri væri “lúser”. En í ljósi þess sem síðan hefur gerst má velta því fyrir sér hvort hún hafi ekki allt eins stuðst við vel skrifað handrit af ærslafullum gamanleik. Og það eina sem hefur þá ekki gengið upp fyrir Samfylkinguna er hið snemmbæra uppþot í Ráðhúsinu. Betra hefði verið að geta baðað sig í sviðsljósinu þegar nær drægi kosningum. Vangaveltur um tilbúið handrit eru þó bara getgátur Einar. 

Ingibjörg er ekki lúser, Össur ekki heldur, honum hefur verið lofað línu í Íslandssöguna fyrir fórnfýsi og Davíð hefur alltaf bjargað sér sjálfur. En hver verður þá lúserinn? Ef foringjastjórnmálin ná fram að ganga verður það fyrst og fremst þjóðin. En sem betur fer eru landsmenn fullfærir um að hugsa sjálfstætt og þegar til kastanna kemur hafa vonandi sem allra flestir ekkert geð í sér til þess að láta stjórnmálamenn og pótentáta þeirra líta á sig eins og jarmandi hjörð. Stór hluti þjóðarinnar vill aukið lýðræði og samfélag þar sem félagshyggju og réttlæti verður gert hærra undir höfði en tíðkast hefur í seinni tíð. Foringjastjórnmálin, sem Samfylkingin setur nú á oddinn, eru hins vegar ávísun á minna lýðræði, málefnasnauða stjórnmálaflokka og áframhaldandi framsókn markaðsaflanna sem eru – rétt eins og persónudýrkunin – andlýðræðisleg. Eina alvöru mótvægið gegn þessu tvíhöfða skrímsli er Vinstrihreyfingin – grænt framboð. Afar mikilvægt er að þeirri staðreynd verði komið rækilega til skila í kosningabaráttunni sem fram undan er. 

Þorleifur Óskarsson