Fara í efni

"LÁTUM VERKIN TALA - NÁUM ÞÓ ALDREI ÖLLU SEM VIÐ VILJUM"

Ég var að lesa grein Ögmundar hér á síðunni um að Sjálfstæðisflokkur og VG eigi ekki að vera saman í ríkisstjórn. Jú, það er fróm ósk okkar flestra, en erfitt við að eiga meðan svo margir kjósendur greiða Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt - og vinstri menn halda áfram að vera vinstri mönnum verstir. Framsókn er nú í lykilstöðu og ríkisstjórn VG, Framsóknar, Samfylkingar og Flokks fólksins yrði vitanlega ekki til gegn vilja Framsóknar. Mér finnst ekki alveg ljóst í greininni hvort félagi Ögmundur metur það meira að koma stefnumálum VG í framkvæmd eða að hafa þau bara letruð með nógu rauðu letri í stefnuskrá. Stefnumálin sem hann telur VG hafa snúið baki við eru langflest enn á sínum stað í stefnuskrám, hægt að lesa hér: https://vg.is/ Reyndar löng lesning, enda er hér nokkuð vel unnin stefna í 23 málaflokkum. Ég er í hópi þeirra VG-félagsmanna sem vilja láta verkin tala - vilja koma stefnumálum í verk. Þó síðasta ríkisstjórn hafi í augum margar verið óhrein þá kom hún ótrúlega mörgum af stefnumálum VG í verk, mun fleiri en eðlilegt má teljast af flokki með aðeins 17% fylgi. Þið sem viljið kynna ykkur það ættuð að lesa þetta: https://gerumbetur.vg.is/ Það þyrfti Ögmundur Jónasson líka að gera, ef marka má skrif hans.
Þorvaldur Örn Árnason

Sæll Þorvaldur Örn og þakka þér fyrir bréfið. Þú segir að VG hafi tekist að koma “ótrúlega mörgum af stefnumálum” sínum í verk á nýliðnu kjörtímabili miðað við fylgi sitt í kosningum. Þú segir að ef marka megi skrif mín ætti ég að lesa afrekaskrána betur á slóð sem þú bendir á. Ég hef nú gert það og get auk þess fullvissað þig um að ég hef fylgst gaumgæfilega með gangi mála almennt á kjörtímabilinu og oft lagt orð í belg. Það er því ekki þekkingarskortur sem veldur heldur erum við einfaldlega ósammála um meintan árangur af stjórnarsetu VG.
Vinstra kjörfylgið hefur aldrei verið í samræmi við mældan þjóðarvilja til dæmis hvað varðar almannarekna heilbrigðisþjónustu, stefnu í orkumálum, afstöðu til kvótakerfisins, einkavæðingu á vegunum, uppkaupa á landi, eignarhalds á grunninnviðum og ýmsu fleiru. Þar hefur minnihluti komið sínum stefnumálum í framkvæmd þvert á þjóðarviljann. Í þessu birtist meðal annars slægð fjármagnsaflanna í Sjálfstæðisflokknum - að ógleymdri hjálpsemi meðreiðarfólks.
Þau mál sem tíunduð eru í punktunum sem þú vísar í eru flest þverpólitísk mál en hins vegar er sneitt hjá því að ræða það sem grundvallarátök ættu að standa um. ( Í “gerumbetur” plagginu er sumt fært í eins konar dulmál, einkaframkvæmd í samgöngukerfinu þannig kölluð “samstarfsverkefni.)
Mín skoðun er sú að þörf sé á því að skera upp herör og safna liði um vinstri stjórnmál. Slíkt gerist hins vegar ekki í samstarfi við harða hægri flokka – sjálf hagsmunasamtök fjármagnsins. Það sem verra er, með þessu samstarfi eru leidd til áhrifa öfl sem ætti ekki að efla undir neinum kringumstæðum. Ekki nægir með öðrum orðum að einblína á verk eins flokks í ríkisstjórn, horfa þarf til verka hennar allrar.
Hvað varðar vilja Framsóknarflokks til samstarfs í félagshyggjuátt þá hef ég þá trú að sá flokkur hefði valið það mynstur sem ég sting upp á fremur en samstarf við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn – það er að segja ef flokknum hefði verið sagt að þessir kostir tveir kæmu einir til greina.
Að ætla mér að ég láti duga að stefnumál vinstri manna séu sett á blað ”í nógu rauðu letri” og gefi þá minna fyrir framkvæmdina, er að sjálfsögðu rangt. Það sem hrellir mig hins vegar er þegar mér sýnist vinstri menn vilja sætta sig við að útvatna stefnumál sín ef þá ekki leggja þau fyrir róða. Nákvæmlega það hefur verið að gerast að mínu mati.
Ég er með öðrum orðum að hvetja til þess að blásið verði í glæðurnar, barátta endurvakin fyrir þeirri vinstri stefnu sem mér finnst átakanlega skorta. Ég vísa í nokkur málasvið í samantekt minni, hef skrifað ítarlega um mörg þessara mála á undanförnum misserum, efnt til vakningarfunda en sjaldan fengið nokkrar undirtektir frá félögum í VG.
Það þýðir þó ekki að talað hafi verið fyrir daufum eyrum.  Ég hef trú á því að vinstristefna muni fá byr í seglin áður en langt um líður. Því fyrr sem fleiri eru tilbúnir að berjast fyrir því.
Ögmundur Jónasson