FÖSTUDAGSREISA

Föstudaginn 10. júlí fóru fjórir mis-aldraðir karlar í bíltúr frá höfuðborgarsvæðinu austur í sveitir, eða eins og sumir segja: „austur fyrir fjall‟. Ekkert þurftu þeir að borga í ríkissjóð fyrir það eitt að fara að heiman, því alþingi okkar Íslendinga hafði ekki auðnast að setja lög um slíkt áður en allir þar á bæ voru sendir heim í sumarleyfi. Veður var með besta móti, logn og blíða sumarsól, er ekið var austur um Hellisheiði á löglegum hámarkshraða. Ferðafélagarnir voru þeir Hafsteinn Hjartarson, Svanur Halldórsson fyrrum leigubílstjori, Sigurjón Antonsson og bílnum ók af öryggisástæðum sá yngsti í hópnum og  hann hafði áður fyrr ekið um í ráðherrabílum, en það var fyrrum ráðherra Ögmundur Jónasson. Honum fórst verkið vel úr hendi. Ekið var upp með Ingólfsfjalli og áfram um Grímsnesið og endað á veitingastað skammt frá Reykholti, er nefnist Friðheimar.               

     Þar var fjölmenni mikið, en kom ekki að sök því allt var með friði og spekt og keyrarinn hafði verið svo forsjáll að panta borð fyrir þá áður en farið var að heiman.  Var nú etið og drukkið um stund og mikið skrafað, sem og á leiðinni. Ferðafélagarnir hrósuð happi yfir því að einn af þeim var með háskólagráðu og gat því rætt vandræðalaust við þjónustufólkið um matföngin. Það bjargaðist, þótt þetta fólk væri ekki með gráðuna. Skyndilega kom foringinn af Klausturbarnum að borðinu þeirra til að forvitnast um hverjir menn þetta væru. Svanur var fljótur til svars, enda vanur að fast við ólátabelgi frá því að hann var í harkinu, og sagði: „Þetta eru eintómir kommúnistar‟. Klausturmaðurinn spurði ekki frekar, en virtist kannast við Ögmund, þótt þeir hafi ekki hittst á Klausturbarnum og ræddust þeir við af mestu kurteisi. Ekkert málþóf. Engu var líkara nú, en að Klausturmaðurinn hefði færst svo langt til hægri að hann væri hræddari við kommúnista en við corona veiruna.

     Að þessu loknu brá nýrra við, því áður fyrr var það siður að greiða matar og drykkjarföng fyrir bílstjórana, en nú vildi hann borga fyrir öll herlegheitin. Varð að láta það eftir honum. Þarna hljóp á snærið hjá Svani, því þegar hann áður stundaði leigubíla akstur, þá borguðu farþegarnir það sem fór ofaní bílstjórann. Var nú ekið heim á leið og fljótlega um ókunna stigu þar sem dýralæknarnir voru að baksa við að leggja nýjan veg, vegamálastjórinn og samgönguráðherrann.

Þegar komið var í Þingvallasveitina komu þeir á kunnuglegar slóðir og farið var um Mosfellsheiði og Mosfellsdal.

Öllum var skilað heilum heim í hlað að lokum, eftir ánægjulegan dag.

Kærar þakkir félagar fyrir ánægjlegan dag.
Sigurjón

Fréttabréf