Fara í efni

SVO ER ÖNNUR TEGUND FROÐUFRÉTTA

Sæll Ögmundur, Þakka pistilinn um daginn um hvernig fjölmiðlamenn forheimska opinbera umræðu um stjórnmál með að slá upp fyrirsögn um ýmis mál og með viðbótinni "segir stjórnmálafræðingur" í meginmáli. Í aðdraganda kosninga halda þeir sínu striki með þetta en bæta við annarri tegund froðufrétta sem felst í því að skrifa fyrirsögn hvern dag um hvort meirihlutar standi eða falli. Í meginmáli er síðan vísað til skoðanakannana. Sífelldar fréttir af skoðanakönnunum er sennilega einföld leið til að fylla síður blaða og framkalla uppgerða spennu í stað þess að taka til umfjöllunar viðfangsefni stjórnmála og mikilvægi almannaþjónustu fyrir lífskjör. Aukið vægi skoðananakannana í stjórnmálaumræðu fjölmiðla markast eflaust af tíðarandanum þar sem læk eru mæld í sífellu. Það er hinsvegar ekki að undra að áhugi á stjórmálum og kosningaþátttaka minnki ef þeir sem stýra umræðunni eru sjálfir ekki vissir um mikilvægi stjórnmála en stilla bara fylgismælingum sem æsifréttum og viðhorfum einstaklinga sem staðreyndum. Sigfinnur