Fara í efni

SPURT OG SVARAÐ UM VENEZUELA

Dyggir lesendur síðunnar bíða enn eftir útskýringu þess sem ,,skammast sín ekki fyrir að vera Sósíalisti" á stöðu mála í Venezuela. Eru núverandi hörmungar bara hola i veginum, eða hefur Viðskiptablaðið eitthvað til síns máls? http://www.vb.is/skodun/gjaldthrot-sosialismans-i-venesuela/142903/
Arnar Sigurðsson

Þú átt sennilega við ég hafi einhvern tímann ekki sagst skammast mín fyrir að vera sósíalisti.
Samkvæmt þeim skilningi sem ég legg í það hugtak þá gengst ég vissulega við því og skammast mín ekki fyrir. Þvert á móti þá er ég sáttur við þá grundvallarafstöðu að vilja sem jöfnust kjör í hverju samfélagi og að skorður séu reistar gegn gripdeildarmönnum. Þá er ég almennt hlynntur félagslegum rekstri á því sem flokka má undir samfélagsþjónustu og er fjármögnuð af skattfé. Nefni ég mennta- og heilbrigðiskerfi í því sambandi en einnig samgöngukerfi, löggæslu og aðra slíka grundvallar innviði eins og í tísku er að kalla þá. Ég er hins vegar síður en svo andvígur því að samkeppnisrekstur sé stundaður þar sem samkeppni á við. Um það snýst síðan pólitíkin hvar þessi landamæri eigi að liggja.
Ekki er þar með sagt að ég skrifi upp á allar hugmyndir og gjörðir manna sem segjast vera sósíalistar.
En vissulega er löngu tímabært að fá umræðu um Venezuela, tilraunir þarlendra manna til að koma í veg fyrir að erlendir olíuauðhringir steli öllum afrakstri af olíuframleiðslu þessa lands sem Viðskiptablaðið segir hafa verið ríkasta land í Suður-Ameríku. Ekki held ég að fátækari hluti íbúa Venezuela hafi fyrr á tíð fengið að kynnast þeim auði mjög náið. Landsmenn allir hafa hins vegar fengið að fylgjast með tilraunum erlendis frá og þá einkum frá Bandaríkjunum til að bregða fæti fyrir alla framafaraviðleitni í Venezuela með býsna miklum árangri - því miður.
En ég skal reyna að verða við áskorun þinni - hef reyndar áður haft um það orð - að reyna að skilja orsakir á erfiðleikum Venezuela sem eru óumdeildir, og þá einnig hvers vegna sósíalistum vegnar betur í almennum kosningum þar í landi en andstæðingum þeirra.
Svo má líka reyna að skilja áhugann sem greinilegur er víða um lönd á öllu því sem úrskeiðis fer í þessu landi sérstaklega.
Með kveðju,
Ögmundur