Fara í efni

HVERS Á ÓTTARR AÐ GJALDA?

Okkur er sagt að þýska tímaritið Spiegel stingi upp á því við lesendur sína  að velja Birgittu Jónsdóttur, Pírata, sem einn af helstu stjórnmálaleiðtogum heims á árinu sem er að líða, ásamt þeim Pútín, Trump og fleira yfirburðafólki. Þetta er án efa mjög verðskuldað. En með fullri virðingu fyrir Birgittu get ég þó ekki setið á mér að spyrja hvers Óttarr Proppé eigi að gjalda. Hann hefur fyrir hönd flokks síns, Bjartrar framtíðar, tekið þátt í tilraunum til stjórnarmyndunar með öllu pólitíska litrófinu á Íslandi og alltaf séð ljósið. Að mati Óttars virðist ekkert standa í vegi þess að björt framtíð geti runnið upp á Íslandi, aðeins ef menn hætti að setja stjórnmálaágreining fyrir sig. Ég fæ ekki skilið annað en að þetta gæti smellpassað í þankaganginn hjá þeim á Spiegel, eins glöggir og þeir virðast vera á tíðarandann.
Sunna Sara