Fara í efni

HVERNIG STJÓRN VILT ÞÚ?

Það hefur lítið heyrst í þér í þessari kosningabaráttu Ögmundur, enda náttúrlega ekki í framboði. En hvernig stjórn vilt þú?
Sunna Sara

Mín afstaða er alveg skýr. Ég vil samstarf þeirra stjórnmálaafla sem vilja leggjast á hina félagslegu sveif. Það á við um VG, Samfylkingu og Pírata og eflaust er félagslega taug að finna þarna einhvers staðar hjá Bjartri framtíð, þótt afar djúpt sé á henni og ég hafi átt erfitt með að koma auga á hana. Og viti menn í Framsókn er hún til þessi taug, og alltaf hefur hún virkjast og eflst í stjórnarsamstarfi yfir á vinstri kantinn. Lilja Alfreðsdóttir gæti orðið handhafi hennar. Að sama skapi hefur allt hið versta í Framsókn eflst og dafnað í faðmlagi með Sjálfstæðisflokknum.
Með öðrum orðum, ég vil vinstri stjórn þótt ég geri mér að sönnu grein fyrir því að talsverð hugarfarsbreyting þarf að eiga sér stað á þessum pólitísku bæjum mörgum hverjum, til að rísa undir sæmdarheiti vinstrisinnaðrar félagshyggju.
En þá ætti jafnframt að skiljast hvað ég ekki vil.
Ögmundur

P.s Það er nú ekki alveg rétt að ég sé ekki í framboði því ég skipa heiðurssætið í Kraganum hjá VG.