Fara í efni

HVAÐ FÆR KVEIKT Í SAMFYLKINGUNNI?

Þegar ég settist niður til að skrifa þér þessar línur fór ég á heimasíðu Samfylkingarinnar til að athuga hvort þeir skreyttu sig enn með heitinu jafnaðarmannaflokkur Íslands.
Ég gat nú ekki gengið úr skugga um það en ég sá pistla og kynningarmyndir frá síðustu kosningabaráttu. Þar var tilgreint hvernig jafnaðarmenn stjórna - væri þeim hlýtt. Þeir verja velferð. Þeir tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntun óháð efnahag og styðja þá sem verst eru settir.
Til skemmtunar má þá bera saman hvernig þeir haga sér í stjórnarandstöðu í tíð ríkisstjórnar sem verður að kalla velferðarfjandsamlega. Þar má nefna til hvernig nauðsynjar eru skattlagðar, saumað er að rétti þeirra hópa sem minnst mega sín (m.a.s. af opinberum vinnuveitendum - nefni t.d. þrif á sjúkrahúsum og hjá ráðuneytum).
Hafi einhverntíma verið jafnvægi milli gjaldtöku fyrir þjónustu í heilbrigðiskerfinu og tekna þeirra sem minnst bera úr býtum, er það brostið. Það er ekki spurning hvort þjónusta kerfisins standi öllum til boða, heldur hversu stór hluti landsmanna getur ekki leyft sér og börnum sínum að nýta heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Á sama tíma er rætt um að auka fjölbreytni í rekstrarformi. Það er lítið dulbúin hótun um minna að ýta frekar til hliðar sjónarmiðum um jafnt aðgengi að þjónustu af sömu gæðum óháð efnahag.
Velferðarkerfið er ekki einsdæmi í þessu. Hver einasti íhaldsráðherra hefur á tyllidögum boðað aukinn einkarekstur og gjaldtöku á sínu málefnasviði. Það er sama hvort þeir eru að ræða um málefni skóla, samgangna eða réttinn til aðgengis að náttúrunni.
Það má því segja án þess að gerast stórkostlega dramatískur að núverandi ríkisstjórn sé að láta sverfa til stáls gegn hugsjónum jafnaðarmanna.
Á meðan ríkisstjórnin hefur nánast farið með beinum hernaði gegn grunnstoðum velferðarsamfélagsins hafa Samfylkingarmenn í stjórnarandstöðu fylst með úr öryggri fjarlægð. Það voru eiginlega engin merki um að það rynni í þeim blóðið fyrr en þeir fengu veður af því að það gæti mögulega staðið til að afturkalla umsókn að Evrópusambandinu. Þá risu þeir upp nokkrir og sögðust fyrr myndu dauðir liggja. Það segir trúlega mikið um menn hvaða málstað þeir velja sér og ekki síður hvenær þeir eru reiðubúnir að berjast fyrir málstaðnum. Hvenær er ógnin svo nærri að menn sjá sig knúna til að standa upp og gera eitthvað? Í tilviki Samfylkingarinnar var þetta kannski vitað - en þeim virðist vera sama um allt nema Evrópusambandið.
Finnbogi