NÁTTÚRUPASSI: NÝ SÝN - NÝIR TEKJUSTOFNAR ...

Stuðningsmenn náttúrupassa segja að hugmyndin að baki honum sé að "þeir borgi sem njóti". Þetta voru meginskilaboð Björgólfs forstjóra Icelandair á afmælisráðstefnu félagsins árið 2012, og Ragnheiður Elín hefur margoft vísað til þessa. Í þessu virðast felast innstu rök náttúrupassans sem sótt er til þegar virkilega á að sannfæra alþýðu manna um að þetta sé sanngirnismál. Sjálfur þekki ég ekki annað en að greiða fyrir það sem ég kaupi á markaði og er því engan veginn andsnúinn því fyrirkomulagi að greiða og njóta. Spurningin er hins vegar að hve miklu leyti þessi frasi er notaður sem leiðsögn við að skipa hvernig við förum með verðmæti í samfélagi okkar. Það er alþekkt fyrir austan haf og vestan að þessi rök eru notuð til að undirbyggja ákveðna samfélagssýn. Þó náttúrupassinn einn og sér þurfi ekki að leiða af sér frekari hörmungar er þetta partur af stærri mynd. Við sáum við Kerið og Geysi að þar átti að setja upp gjaldtökuskýli til að búa til tekjustofn fyrir einkaaðila. Í víðara samhengi snýst þetta um þá stefnu stjórnvalda sem stefnir að þessu leynt og ljóst á sem flestum sviðum. Þegar þessi pólitík er tekin aðeins lengra er einkaaðilum færður réttur til að setja upp gjaldtökuskýli með því að ríkið færir til þeirra eign eða ráðstöfunarrétt á eignum sínum eða samfélagsins. Hættan er sú að hér verði allt það undir áður en yfir lýkur. Allir innviðir samfélagsins sem ykkur dettur í hug og allt sem við metum og gætum viljað greiða fyrir. Þetta er engin sérstök bölsýn, þetta er bara það sem hægrisinnaðir valdhafar hafa verið að gera þegar þeir hafa aðstöðu til. Þessi náttúrupassi er arfavitlaus en hann er partur af ákveðinni heimsmynd sem er trúlega ástæðan fyrir því að þau sterku peningaöfl sem stjórna landinu eru svo hrifin af þessari annars vonlausu lausn.
Kjartan

Fréttabréf