MUN NEITA AÐ NOTA AUÐKENNI

Ég vil þakka þér Ögmundur fyrir þá umræðu sem þú hefur haldið á lofti með fyrirhugaðan þátt Auðkennis í skuldaleiðréttingunni. Sem ríkisstarfsmaður á ég engan kost annan en að fá greidd laun í krónum (frá ríkinu) og greiða skatta mína og skyldur í sömu mynt. Þetta er víst orðað svo að íslenska krónan sé lögeyrir í landinu. Það á að þýða að hún sé gjaldgengur greiðslumáti í öllum viðskiptum. Þetta er víst einn af þeim þáttum sem ríkið skilgreinir sig út frá: Að hafa einkaleyfi á valdbeitingu og útgáfu gjaldmiðils. Þeir sem feta inn á þetta svið ríkisins lenda venjulega í vandræðum. En þegar kemur að skuldaleiðréttingunni virðist sem ríkið ætli að víkja frá þessu grundvallarsjónarmiði. Ríki setur það sem skilyrði fyrir greiðslu að landsmenn hafir fyrst fengið vottorð útgefið af einkaaðila. Ef þú þarft vottorð frá öðrum en ríkinu til að nota lögeyri landsins hefur ríkið í raun gefið eftir eitt af sínum kjarnahlutverkum. Það stenst engin rök og engin lög. Ég mun að sjálfsögðu neita þessu - fara fram á að fá greitt í reiðufé ef þeir sitja fastir við sinn keip - eða fara með málið fyrir dómstóla ef það dugir ekki til.
Július F.

Fréttabréf