Fara í efni

ÓGEÐFELLDUR MÁLFLUTNINGUR?

Ýmsir ferðaþjónustuaðilar svo og ríkið hafa miklar tekjur af ferðamennskunni og því að selja aðgang að landinu. Ættu þessir aðilar ekki að leggja fé í að bæta umgengnina? Hvað gerðir þú Ögmundur í þinni ríkisstjórnartíð til að leysa þann vanda sem steðjar að mörgum ferðamannastöðum sem skapast af of mikilli umferð? Hver er munurinn á að ferðaþjónustuaðili auglýsi og selji erlendis ferðir að helstu náttúruperlum landsins og svo hinu að landeigandi seldi aðgang að áhugaverðu svæði á sínu landi? Það er stundum sagt að öfga vinstri og öfga hægri mætist, það virðist vera tilfellið með þig Ögmundur. Þessi umræða minnir á þegar ultra frjálshyggjan tók höndum saman við ríkisvaldið um að hafa orkuréttin af landeigendum fyrir smánarpening. Þannig er öll hin margrómaða vatnsorka landsins ekki metin nema á örfáa miljarða, allur gróðinn skal í vasa framkvæmdaraðila. Þar tóku höndum saman öfgakapítalistar og ríkishyggjumenn á afar ógeðfeldan hátt. Sama er uppi á teningnum í ferðaþjónustunni. Flugfélögin, olíufélögin, veitingabransin,rútufyrirtækin,auglýsingastofurnar,ferðaþjónusturnar,leiðsögumennirnir, allir þessir skulu græða en að setja megi verðmiða á sjálf náttúruverðmætin er alveg bannað. Ekki einusinni til þess þó að reyna að koma í veg fyrir stórskemdir. Í raun skýtur þessi misheppnaða náttúruumræða þín sig í fótinn. Omar Ragnarsson og fleiri hafa reynt að benda á að nátturan hafi verðmæti t.d. sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn en með því að banna að setja verðmiða á náttúruperlurnar þá ertu að gefa í skyn (þó þú virðist ekki gera þér grein fyrir því sjálfur) að þær séu verðlausar. Svona rétt eins og vatnsrétturinn. Eða hvaða vit var að setja hér þjóðfélagið næstum á hausinn vegna virkjana með ofboðslegum skuldum t.d. Landsvirkjunar ef heildar verðmæti vatnsréttarins var ekki nema skitnir (í stóra samhenginu) 10 milljarðar?
Bjarni Gunnlaugur

Þakka þér bréfið Bjarni Gunnlaugur.
Í fyrsta lagi þá er á það að líta að við erum að tala um lögin í landinu. Gjaldheimtan er ólögleg.
Í öðru lagi er grundvallarmunur á því að taka gjald af þjónustu annars vegar og því hins vegar að horfa á og njóta náttúrunnar.
Í þriðja lagi tel ég að tal um að náttúruperlur liggi undir stórskemmdum vera ýkjur. Það þarf að gera átak þeim til varnar en þetta skyndilega tal um að allt sé að fara fjandans til er komið frá þeim sem vilja nota tækifærið til að bú til kerfi sem þeir haganst á. Þú notar orðið ógeðfellt. Í þessu sambandi geri ég það lika.
Þú lýsir umhyggju gagnvart "eigendum" orkunnar í landinu. Þeirri umhyggju deili ég ekki.
Kv.,
Ögmundur