Fara í efni

MEINAÐ AÐ LEGGJA FRAM KÆRU

Sæll Ögmundur og takk fyrir frumkvæði þitt í að verja almannarétt. Þessi réttur byggir á fornri hefð, þó hann sé lítillega þrengdur í gildandi náttúruverndarlögum. Ég hef því miður ekki átt kost á að slást í hópinn á laugardögum en átti leið á Geysi á föstudaginn var. Þá gerði ég tilraun til að komast að hvernum en var stöðvaður og krafinn um pening. Ég neitaði auðvitað að borga og þegar ég reyndi að ganga inn steig vörðurinn í veg fyrir mig til að meina mér inngöngu. Þá hringdi ég í lögregluna í Árnessýslu (kl. 12:59) og kærði þessa tilraun til fjárkúgunar.
Eftir alllangt þóf féllst lögreglumaðurinn sem ég talaði við á að bóka nafn mitt og kennitölu og sagði mér að ég gæti farið á hvaða lögreglustöð sem er til að ganga frá kærunni, hann hefði hinsvegar ekki mannafla til að senda uppeftir. Ég veit að lögreglan út um landið er undirmönnuð og ákvað því að láta þá njóta vafans.
Mánudaginn 7.4. kl.13 kom ég á lögreglustöðina í Borgarnesi og vildi ganga frá kærunni. Þar var von á lögreglumanni sem tekið gæti á móti kærunni að tíu mínutum liðnum. Rúmum tíu mínútum síðar kom ég aftur og þá var búið að loka lögreglustöðinni. Mönnun lögreglunnar í Borgarnesi er þannig háttað að loka þarf stöðinni ef útkall kemur. Ég reyndi að hringja í vaktsímann en honum var ekki svarað.
Þriðjudaginn 8.4. kom ég á lögreglustöðina við Hlemm um kl. 15:30 en var tjáð að kærudeildin væri aðeins opin til kl. 15:00. Jafnframt fékk ég að vita að ég gæti sent inn bréflega kæru til lögreglustjórans í Árnessýslu.
Ég hafði ekki tækifæri til að skrifa kæru næstu daga og fór því aftur á lögreglustöðina við Hlemm kl. 14:15 í dag (11.4.). Þá kom niður í móttökuna rannsóknarlögreglumaður og neitaði að taka við kæru því lögreglan fengi ekki séð að neitt brot hefði átt sér stað. Það eina sem ég gæti gert væri að senda formlegt erindi til sýslumannsins í Árnessýslu og kæra það brot sem ég teldi mig hafa orðið fyrir. Hann þyrfti þá lögum samkvæmt að bregðast við og rökstyðja ef hann gerði ekkert í málinu.
Í millitíðinni hafði það gerst að ég fór með hóp af ferðamönnum að Geysi og hafði fengið þau fyrirmæli frá erlendu ferðaskrifstofunni að greiða aðganginn fyrir fólkið, ég fór auðvitað fram á formlegan reikning og fékk ónúmeraðann reikning í einriti með stimpli Landeigendafélags Geysis, auk þess lét ég afgreiðslustúlkuna skrifa undir greiðslukvíttun í tvíriti þar sem fram kom að þetta væri greitt með fyrirvara um lögmæti innheimtunar.
Það er augljóst að landeigendur treysta ekki á að sambönd sín dugi til að stöðva kæru frá fyrrverandi innanríkisráðherra en eru kokhraustari gegn venjulegum meðaljóni. Því væri kannski ekki úr vegi að einhverjir reyndu að vera aðeins á undan hópnum á morgun.
Þetta hættir ekki fyrr en sýslumaður verður neyddur til að stöðva þetta, hann á ekki eftir að gera það sjálfviljugur. Ég mun á mánudaginn setja formlega kæru í ábyrgðarpóst.
Ef einhver lögfróður sem þetta les er tilbúinn til að aðstoða mig án þess að eiga von á greiðslu, er öll aðstoð vel þegin. Ég er ekki lögfróður maður en tel líklegt að hefð teljist því sterkari sem hún er eldri. Þá er enginn hefðarréttur sterkari en almannarétturinn og ógerlegt að túlka þær takmarkanir sem á hann eru lagðar samkvæmt náttúruverndarlögum á þann máta að þær heimili gjaldtöku fyrir að ganga um eða skoða land. Gangi ykkur vel á morgun!
Friðrik Aspelund

Þakka þér bréfið Friðrik. Þetta er fróðleg lesning.
Með kveðju,
Ögmundur