GJALDTAKA OG ÁBYRGÐ

Gott framtak hjá þér Ögmundur að mæta á Geysissvæðið og rukkaranir láta sig hverfa sem skjótast. Nú er að skjóta upp kollinum mikil græðgisvæðing. Menn taka sig til og telja sig hafa rétt á að setja upp gjald til að skoða náttúruauðlindir jafnvel þó þær séu í almanna eigu.
Ein hlið á þessu er mjög einföld: Nú gæti einhver hrasað á gömlum og lúnum stígum og gæti sýnt fram á misfellur eða galla á yfirborði stígsins að hann hafi hrasað. Mjög líklegt er að viðkomandi teldi sig vera á ferð í réttarríki og stefni þeim sem innheimti gjaldið. Mjög líklegt er að viðkomandi verði dæmdur réttur enda felur gjaldtakan í sér ábyrgð að hættulaust sé að vera þarna á ferð.
Gjaldtökumenn hafa ekki lagt út krónu að bæta aðstöðu þarna við hverina, hvorki merkingar, fræðslu né salernisaðstöðu svo dæmi sé nefnt. Hugur þeirra er fyrst og fremst bundinn að græða sem mest án nokkurra útgjalda og stinga gróðanum á sig án þess að gera ráð fyrir virðisauka eða hlutdeild ríkissjóðs. Þetta er eins og hvert annað gertæki þar sem þessir gróðapungar taka sér lögin í sínar hendur. Þeir skilja ekkert í sjónarmiðum annarra. Ég átta mig heldur ekki á sjónarmiðum þeirra heldur enda virðist sem refirnir séu skornir til að græða sem mest á sem fyrirferðaminnstan hátt!
Ég sem leiðsögumaður erlendra ferðamanna um Ísland meira en 20 sumur tek ekki þátt í græðgisvæðingu braskaranna.
Guðjón Jensson

Fréttabréf