Fara í efni

ÞAR ÉTUR KERFIÐ SIG INNAN FRÁ

Sæll Ögmundur,
Heilbrigðiskerfið þykir dýrt hér á landi á alla mælikvarða sem óseðjandi hýt en hvar skyldi draga mörkin? Kemur að því að eldri borgarar yfir 70 ára hafi lifað sældardaga og þurfi síður í dýrar eiturmeðferðir vegna krabbameins sem lengir lifið mögulega um fá ár eða fá líknandi meðferð? Á að skikka þá sem eru of þungir til að takast á við þann vanda á eigin vegum fyrir aðgerð sem dugar ein og sér skammt verði matarfíkninni ekki slátrað? Sjálfur er ég ný skriðinn út úr 5 vikna sjúkrahússdvöl eftir bakspengingu vegna hryggbrots en vegna sparnaðar var því sleppt að taka mynd illu heilli og hökkti þannig í marga mánuði uns spenging var óumflýjanleg með skertum lífsgæðum.
Segja má að ég hafi engan veginn verið undirbúinn andlega eða líkamlega undir 5klst aðgerð og smíði á nýjum liðbol þar sem mánuðina á undan komst ég varla úr sporum vegna kvala. Þá kom til kasta hjúkrunar- og sjúkraliða sem bókstaflega höfðu mig í fanginu talandi í mig kjarkinn og á ég þessu fólki miklar þakkir skyldar.
30kg fuku í þessum veikindum og sýkingu sem skall á eftir aðgerð og enn var það sama fólkið sem hélt manni á floti og hugsagði ég oft til þeirra að fá fullvaxinn sterabolta 150kg í rúmið og þurfa að velta slíkum um með handafli. Einhversstaðar þarf að setja þyngdarmörk og efla tækjabúnað svo sem sjúkralyftur við hvert rúm því bök liðsveitanna þola ekki svona átök.
Sjúkrakerfi Bandaríkjanna er oft í umræðunni en svolitið á villigötum finnst mér þar sem fólkið sjálft er að éta kerfið innanfrá með stanslausum áhrifaríkum málaferlum gegn læknum fyrir meint mistök og er svo komið á Bellevue sjúkrahúsinu að sérfræðingar í bæklunarlækningum og fæðingarhjálp eru að finna sér aðar sérgreinar áhættuminni þar sem 10 milljón dollara iðgjald v/starfa sinna er of mikið og sjúkrahúsin neita sjálf að greiða fyrir. Því verða engir sérgreinalæknar á þessu sviði þar í árslok 2013 eða fyrr. Fjársvik skipulögð af glæpahópum ryksuga kerfið með fölskum tilbúnum reikningum og er nánast óviðráðanlegt m.v.núverandi skipulag.
Þór Gunnlaugsson