Fara í efni

PÍRATAR NEITA AÐ GEFA UPP AFSTÖÐU

Í Fréttablaðinu í dag skrifar Herbert Snorrason um stefnu Pírata í landsbyggðamálum. Ef ég skil orð hans rétt þá er svarið þar eins og oft áður hjá þeim stjórnmálaflokki að Píratar ætlist ekkert fyrir sjálfir heldur aðeins að búa til farveg fyrir íbúa landsins til að hafa áhrif. Gott og vel. En vandinn við þetta er sá að Píratar munu, komist þeir á þing, þurfa að koma að fjölmörgum ákvörðunum, en þeir neita að láta uppi hver grunnafstaða þeirra er til mikilvægra mála. Myndu Píratar t.d. kjósa þvert á hugmyndir sínar í höfundarréttarmálum ef þeir sem taka þátt í vefsamfélagi þeirra leggja það til? Hvað með önnur mál? Einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu? Skattalækkanir Sjálfstæðisflokksins?
Annars var Halla Gunnarsdóttir með ágætt innlegg um þetta með internetið í DV um daginn (sjá líka: http://halla.is/?p=1278). Þar sagði hún m.a: „Internetið er ekki lausn, heldur verkfæri. Það er ekki nóg fyrir stjórnmálahreyfingu að kynna tækið sem hún vill nota.  Við þurfum líka að vita hvert hreyfingar ætla að stefna, hvernig Ísland þær vilja byggja upp. Þetta þurfa allir kjósendur að spyrja um þegar valið snýst um afturhvarf til sérhagsmunagæslu hinna fáu eða vonina um réttlátara samfélag þar sem almannahagsmunir eru í öndvegi."
Margrét Jónsdóttir