Fara í efni

AÐ SKOÐA HÖFUÐSTÓLA Í 5-8 ÁR

Ég spurði um daginn um stefnu VG í skuldamálum heimilanna. Ef til vill vitnaði ég rangt í orð nýkjörins formanns VG og bið þá forláts á því. En svo vill til að ágæt fésbókarvinkona mín, Arna Mosdal, vísar í viðtal Fréttablaðsins við formanninn um skuldavandann og ekki kemur það betur út fyrir hreyfinguna. Katrín segir þar: „Við viljum kanna leiðir til að skoða sérstaklega lán tekin á árunum fyrir hrun og gera einhverja áætlun til fimm til átta ára, eitthvað slíkt, til að skoða höfuðstól þessara lána." (Fréttablaðið 25. febrúar 2013).

Er þessi langtíma stólaskoðun á stefnuskrá flokksins eða er þetta bara prívatskoðun formannsins? Nú þegar eru fimm ár frá því verðbólgan fór á fulla ferð og fjögur og hálft frá hruni. Hefur engin forskoðun á stólunum farið fram á þessum tíma? Fjöldi fólks bíður leiðréttinga. Það mun ekki bíða 5-8 ár til viðbótar. Það mun ekki hinkra deginum lengur en til kjördags.
Hulda