Fara í efni

RIFJUM UPP SÖGUNA!

Sæll Ögmundur og gleðilegt ár.
Mig lagnar til þess að rifja upp með þér dálitla sögu um mann sem ég átti samleið með árið 1983. Þessi maður barðist fyrir okkur sem höfðum keypt okkur íbúð og hélt ræður um hvað verðtryggingin væri óréttlát, hann stofnaði meira að segja samtök um málefnið. Árin frá hruni hef é velt fyrir mér hvar þessi maður er staddur í dag því að ekki hefur heyrst frá honum sami eldmóðurinn og var hér áður. Hann er kannski búinn að greiða níður sín verðtryggðu lán og vill fá sinn lífeyrir verðtryggðan svona þegar starfslokin nálgast. Hvað heldur þú Ögmundur að hafi orðið um þennan mann og hvers vegna það heyrist ekki í honum lengur,hann er kannski bara orðin feitur og værukær eða bara áhrifalaus með öllu? Spyr sá sem ekki veit. Hafðu það sem allra best á nýju ári.
Viðar Magnússon

Sæll Viðar og þakka þér bréfið.
Frá því að ég fór að láta til mín taka á vettvangi þjóðmálaumræðu hafa mér þótt lánamál vera mál málanna. Þú vísar til Sigtúnshópsins þar sem ég var vissulega á kreiki en síðan var ég starfandi á vettvangi BSRB og loks í pólitíkinni. Alls staðar hef ég lagt mig eftir þessum málaflokki og geri enn. 
Það er rang-minni hjá þér að Sigtúnshópurinn hafi lagt höfuðáhesrlu á afnám verðtryggingar. Ástæðan var sú að við sáum að þótt verðtryggingin væri ill þá báru verðtryggð lán lægri raunvexti og afborganir af verðtryggðum lánum voru léttari framan af en á óverðtryggðum lánum. Við sögðum á þessum tíma að við vildum raunvextina niður og afborganir þolanlegri með lengingu lána. Þetta tvennt yrði að fara saman annars væri einfaldlega verið að "lengja í hengingarólinni" einsog við orðuðum það.
Á þessum tíma var framlag frá hinu opinbera (húsnæðislán) innan við 20% af verðgildi staðalíbúðar. Hitt voru allt skammtímalán í bönkum. Við bentum hins vegar á ranglætið sem í því var fólgið að afnema verðtryggingu launa eins og gert var vorið 1983 en láta verðtryggingu lánanna æða upp a við. Verðbólguhraðinn fór á tímabili upp fyrir 100%! 
Á Alþingi lagði ég síðan fram frumvörp sem gengu út á það að á verðtryggð lán mættu ekki bera hærri vexti en 2% og nú undanfarnar vikur hef ég verið á þessari sveif en einnig talað fyrir þeirri hugmynd sem Framsókn hefur sett fram um að vísitalan sem smurt er á lán mætti aldrei fara yfir tiltekið mark - þar hef ég nefnt verðbólgumarkmið Seðlabankans.
Í hruninu lagði ég til á fundi í Ráðherrabústaðnum með oddvitum þáverandi ríkisstjórnar að vísitalan yrði alla vega tímabundið tekin úr sambandi. Þarna var ég staddur sem formaður BSRB. Þessari tillögu var kröftuglega andmælt af hálfu SA og ASÍ. Þetta hefur áður komið fram.
Í öllum þeim viðræðum sem fram fóru um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna fram á haust 2010 talaði ég alltaf fyrir "niðurfærsluleiðnni". Það þekkja allir sem að þessari umræðu komu. Ég var algerlega sammála Hagsmunsamtökum heimilanna um að færa lánastabbann almennt niður sem næmi helmingi af verðbólguskotinu í kjölfar hrunsins. Fyrir þessu var hins vegar ekki mikill hljómgrunnur, hvorki á þingi (með undantekningum) né í ríkisstjórn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagðist einnig hart gegn þessu.
Hvað verðtrygginguna snertir er ég þeirrar skoðunar að hún verði að hverfa. Enda þótt raunvextir séu lægri af verðtryggðum lánum og afborganir þolanlegri en af óverðtryggðum lánum er það engu að síður svo, að verðtryggt lán verður dýrara vegna verðtryggingarinnar þegar upp er staðið því verðbótunum er hlaðið á höfuðstólinn. Þetta hljómar mótsagnakennt en er engu að síður veruleikinn.
Það er rangt hjá þér að ég hafi ekki talað fyrir þessu sjónarmiði. Það hef ég gert. Meira að segja af talsverðum eldmóð. Málflutningur minn hefur hins vegar greinlega ekki náð eyrum þínum. Þess vegna þessar línur. Það getur verið gott og gagnlegt að rifja upp söguna.
Ég óska þér alls góðs. Með kveðju,
Ögmundur