ER ÞETTA ÞAÐ SEM AÐ VAR STEFNT?

Í þessu ráðningarmáli sýslumannsins á Húsavík finnst mér halla mikið á þann sem sótti um starfið og fékk. Þetta segi ég eftir að hafa rennt yfir úrskurð kærunefndar janfréttismála ( http://www.rettarheimild.is/Felagsmala/KaerunefndJafnrettismala/nr/4523 ). Þar er mikið vitnað til málstaðar kæranda sem kölluð er A (þ.e. konunnar sem sótti um starf og fékk ekki). Hennar sýn á eigin verðleika er rakin í smáatriðum. Þá er birt sjónarmið kæranda um hvernig karlinn sem fékk starfið (B) stendur henni að baki í flestu. Nú er ég ekki lögfræðingur og hef engan áhuga á formlegri málsmeðferð. Réttlætiskennd minni er hinsvegar misboðið við þennan lestur. Er þetta raunverulega það sem stefnt er að? Að þeir sem sæki um starf hjá ríkinu eigi það á hættu að einhver nefnd éti upp og birti huglægan mannjöfnuð kæranda sem lýsir sjálfum sér í dýrðarljóma, andspænis neikvæðri túlkun á ýmsum þáttum í lífshlaupi þess sem fékk starfið. Þetta persónulega mat kæranda stendur óhaggað meðan ráðuneytið ver stjórnsýsluna og sjálft sig gagnvart því að hafa gert mistök við formlega meðferð málsins. Óháð markmiðum um jafnrétti kynjanna og stjórnsýslulögum þá er þessi framsetning og málsmeðferð smekklaus.
Haraldur B.

Fréttabréf