Fara í efni

"MEÐ ANDARTAKS-NETLEIT..."

Það hefur vakið athygli að fyrirætlanir Núbós á Grímsstöðum virðast taka stöðugum breytingum. Heimildirnar um það eru einkum ummæli Núbós sjálfs við erlenda fjölmiðla og svo orð svaramanns hans á Íslandi, Halldórs Jóhannssonar. Það er engin ástæða til að rekja þá sögu en þó vekja ummæli sem höfð hafa verið eftir Halldóri í fjölmiðlum í dag athygli (30. ágúst - sjá t.d. Eyjuna http://eyjan.pressan.is/frettir/2012/07/30/halldor-johannsson-nubo-getur-ekki-vedsett-land-grimsstada-engin-tengsl-milli-grimsstada-og-langanesverkefnis/).

Þar segir hann að Núbó hafi engan áhuga á norðurslóðasiglingum þó hann tengist þeim málum sjálfur. Það á semsagt að gera skýran greinarmun á hótelbyggjandanum Núbó og umboðsmanni hans, Halldóri Jóhannssyni, sem hefur áhuga á norðurslóðamálum. Andartaksnetleit sýnir þó að Núbó sjálfur virðist ekki gera þennan sama greinarmun. Hann tjáir sig t.d. ekki einvörðungu um hótelbyggingar þegar rætt er um Ísland heldur virðast þeir Halldór hafa sameiginlegt áhugamál í þessum norðurslóðasiglingum. Í viðtali við blaðamann Berlingske í Kína segir Núbó frá því að hann hafi rætt við utanríkisráðherra Íslands og forsetann um hversu vel Ísland liggi við nýjum siglingaleiðum og Íslendingar eigi ekki að vera hræddir við að þjónusta kínversk skip (http://kinablog.dk/2011/10/03/huang-nubo-den-kinesiske-milliard%c3%a6r-og-island/).

Þá kemur fram í ferðabloggi sem Ragnar Baldursson virðist hafa haldið um ferð Núbós, Hjörleifs og félaga til norðurpólsins, að þeir hafi á kvöldin rætt um þær breytingar sem orðið gætu á alheimshagkerfinu þegar skipasiglingar milli Íslands og Kína myndi breyta vöruflutninganeti heimsins (http://arcticportal.org/old-news/403-arctic-fox-last-degree-ski-expedition) .

Í sjálfu sér er ekkert merkilegt að Núbó hafi áhuga á siglingum milli Evrópu og Kína. Ég vildi bara benda á að ummæli Halldórs Jóhannsonar um að Núbó hafi ekki áhuga á öðru en hótelum virðist ekki samræmast veruleikanum að fullu.
Matthías