Fara í efni

AÐSTANDANDI HORFINN?

Sæll.
Ég skrifa ekki undir nafni í þetta skipti en bendi lesendum á að síðuhöfundur getur séð nafn mitt. Það var hérna á árunum sem Pinocét var að slaka á klónum að það mátti sjá fréttamyndir af grátandi mæðrum á torgum Argentínu með innrammaðar ljósmyndir, aðallega af sonum sínum, sem höfðu horfið í hreinsunum stjórnarinnar. Nú er ég ekki í ósvipaðri aðstöðu með náinn aðstandanda. Hann var á heimilinu og birt ákæra og málið var dæmt hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.
Ég fór niður í dóm og bað um afrit dómsins í afgreiðslunni. Svar: Nei. Fór til ritara dómarans og bað um afrit. Svar: Nei. Fór til dómarans. Svar: Nei. Skýring dómarans: "Vildir þú að allir gætu fengið afrit af dómi ef þú gerðir eitthvað af þér"?. Ég varð að gjalti, málið var opinbert mál og þetta er í andstöðu við 1200 ára dómsögu landsins.
Þessi aðstandandi minn er nú horfinn. Ég hef ekki neina vissu um hvort hann var dæmdur í fangelsi. Fyrirspurnum til Fangelsismálastofnunar ríkisins er svarað: "Við megum ekkert gefa upp". Fyrirspurnir til lögreglu eru: "Við getum ekkert gefið upp".
Mér kemur ekki til hugar að spyrja þig hvort þér þyki eðlilegt að fólk hverfi aðstandendum sínum eins og í Argentínu fyrir fám árum, því þetta væri ekki svona ef þér þætti þetta óeðlilegt þrátt fyrir að stríða gegn lögum og öllum mannréttindasáttmálum. En ég mótmæli þessu harðlega.
Aðstandandi

Þakka bréfið. Ég ráðlegg þér eindregið að leita til lögreglu ef þú telur að aðstandandi þinn sé horfinn. Hvað varðar afhendingu á afriti dóma þá er meginreglan sú að dómar eru birtir og hefur dómstólaráð látið birta reglur um birtingu héraðsdóma. Undantekningar frá birtingu eru tilgreindar í reglunum.
http://www.domstolar.is/files/Tilk.nr.4-2010%20Reglur%20um%20birtingu%20héraðsdóma%20á%20heimasíðu%20héraðsdómstólanna_1976644385.pdf
Ef um er að ræða dóm sem af einhverjum ástæðum er ekki birtur og einhver vill fá afhent afrit af honum er horft til þess hvort viðkomandi hafi lögvarða hagsmuni og verður hann að sýna fram á að svo sé.  Það hafa einnig verið gefnar út reglur um afhendingu gagna hjá dómstólum.

http://www.domstolar.is/files/Tilk.nr.2-2008%20Reglur%20um%20aðgang%20að%20gögnum%20hjá%20dómstólum_895141806.pdf
En ég ítreka. Leitaðu til lögreglu um aðstoð við að fá botn í málið. Það er rangt hjá þér að mér finnist þetta erindi ekki skipta máli. Að sjálfsögðu þykir mér það.
Með kveðju,
Ögmundur.