Fara í efni

FULLTRÚI KERFISINS?

Davíð Oddsson segir í viðtali í Verslunaskólablaðinu að hann hafi barist fyrir setuverkfalli í MR sem þú hafir beitt þér gegn sem „fulltrúi kerfisins". Svona skipast veður í lofti segir hann því nú sért þú til vinstri en hann til hægri og má skilja að eðli máls samkvæmt hefðir þú átt að vera verkfallsmaður. Er þetta rétt Ögmundur? Sjá http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/david-oddsson-thorvaldur-gylfa-ekki-enn-fyrirgefid-mer-sigurinn---mikid-af-ovenju-lelegu-lidi-a-thingi
Haffi

Svona getur minnið farið illa með menn Haffi. Það var ekki Davíð sem beitti sér fyrir setuverkfallinu, sem hann vísar til heldur forveri hans sem Inspector scholae og ágætur vinur minn. Ég var hlynntur málstaðnum og deildi þar skoðun með setumönnum. En þegar ég frétti að óánægja nemenda hafði ekki verið borin upp við skólayfirvöld þótti mér málið horfa öðruvísi við. Síðan kom á daginn að skólayfirvöld voru samstiga nemendum og lausn fyrirsjáanleg. Þá hafði ég engan sérstakan áhuga á að setjast niður þótt stemning væri mikil fyrir slíku.
Fulltrúi kerfisins? Ég gerðist sekur um það eitt að vilja síður taka þátt í sýndarslag og þannig fljóta með straumnum, eins og hann lá þá. Niðurstaðan varð sú sem allir vildu. Kerfismennska er hins vegar að þora ekki að hafa skoðun sem er andstæð ríkjandi hugsun og valdi.
Ögmundur