LÝÐRÆÐI OG VALDASTÉTT

Sæll Ögmundur.
Þakka pistilinn um lýðræði eða raunverulega virðingu fyrir skoðunum annarra. Frábær pistill. Þú lýkur samantekt þinni með orðunum: "...frá núverandi stjórnarandstöðu, sem helst grætur auðlegðarskatt og tregðu við að  falbjóða orkuauðlindirnar fjölþjóðaauðvaldi til brúks". Rökrétt niðurstaða málflutnings sjálfstæðis-og framsóknarmanna sem nú sitja á Alþingi. Langaði að bæta við örfáum orðum.

Ofsi sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu eftir að hafa verið í ríkisstjórn frá árinu 1991, manna sem með framgöngu sinni, undir það síðasta, áttu ríkan þátt í að leggja hugmyndafræðilegan grunn að hruni efnahagslífsins á sér nefnilega sögu, sem nær lengra en til ársins 2009. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið utan ríkisstjórnar um þrjátíu mánaða skeið, en er orðinn eins og stunginn grís.
 
Hann hefur beitt Samtökum atvinnulífsins og ASÍ, Verslunarráði, sem greiddi bandarískum söluhagfræðingi 124 þúsund dollara fyrir að gefa íslenska bankakerfinu ágætiseinkun stuttu fyrir fallið í kompaníi við núverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins, og svo auðvitað LÍÚ-drengina. Flokkurinn hefur beitt ófáum fjölmiðlum sem hann ræður. Hann beitir atkvæðamiklum sjöllurum, úr eigin flokki og öðrum, til að grafa undan vörn fyrir almannahag og halda fram sérhagsmunum þeirra sem ráða Sjálfstæðisflokkum. Allt leiðir þetta svo til fátæklegrar íslenskrar umræðuhefðar og hræðslu við það að taka Sjálfstæðisflokkinn, eðli hans og áhrif í íslensku samfélagi, til alvarlegrar og efnislegrar umræðu.
 
Af hverju er það nauðsynlegt? Jú, það er nauðsynlegt m.a. vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn siglir undir fölsku flaggi og hefur gert það a.m.k. síðustu fimmtíu árin. Hann boðar frjálslyndi, jafnvel frjálshyggju, frjálsa samkeppni, og segist tryggja hagsmuni "frjálsra einstaklinga", en grunnforsenda Sjálfstæðisflokkins er að hafa völd og halda völdum, að ráða ríkisvaldi í þágu hinna fáu. Hann er m.ö.o. allt sem þú gagnrýnir í samantekt þinni. Með andstöðunni við auðlegðarskatt gengur hann erinda stóreignamanna. Í vörn sinni fyrir kvótakerfið reynir hann að standa vörð um sérhagsmuni fámenns útgerðaraðals, í auðlindamálum gengur hann erinda "fjölþjóðaauðvaldi", eins og þú bendir á, og bregður sér í þeim efnum í búning valdastéttar í "nýfrjálsum" ríkjum Afríku.

Sjálfstæðisflokkurinn var og er fylgjandi eftirlitsleysi í atvinnulífinu og þar með ýtir stefna hans að einokun og fákeppni, sem reynslan sýnir að leitt hefur til samfélagslegra stórslysa. Sjálfstæðisflokkurinn vill helst undanþiggja íslensk fyrirtæki eðlilegum skattgreiðslum og flokkurinn vill fá að ráða því hvað er gott og hvað vont fyrir þá "frjálsu einstaklinga" sem hann segist þjóna. Sá hópur er ekki fjölmennur. Nokkrir útgerðarmenn, nokkrir verslunarmenn, nokkrir bankamenn, nokkrir menn með fjármálavöld og svo hinir sem hirt hafa molana sem hrotið hafa af borði "frjálsra manna".
 
Sjálfstæðisflokkurinn þarf að ráða ríkisvaldi til að þjóna hagsmunum þessa fámenna hóps. Það skýrir ofsann í stjórnarandstöðunni. Greinar, eins og þú settir saman um lýðræði, og dómgreind manna,  eru til þess fallnar að varpa ljósi á eðli þeirra sem sigla undir fölsku flaggi. Haltu því áfram.
 Kv.
 Ólína

Fréttabréf