Fara í efni

NÆST BOÐIÐ Í HERÐUBREIÐ?

Heill og sæll Ögmundur.
Verður næst boðið í fjallið okkar Herðubreið? Nú er þörf staðfestu þinnar, sem og áður. Nú treysta þeir á þig sem ekki eru enn blindaðir af erlendu valdi sem veður yfir heiminn og hefur það eina markmið að gleypa allt sem von er gróða af. Það gerist svo alltaf á kostnað umhverfisins, því lögmál er, að ekkert er hægt að taka af engu.
Við eigum landið og megum undir engum kringumstæðum selja það, enda þurfum við þess ekki. Við sjálf getum nýtt það á skynsaman hátt, til góðs fyrir okkur og aðra sem þurfandi eru.
Fyrir nokkrum áratugum, þ.e. áður en landsölumenn náðu hér völdum, var landsala flokkuð undir landráð, og þeir ólánsmenn sem slíkt aðhylltust réttilega nefndir landráðamenn. Nú þegar alþjóðaauðvaldið svo skipulagt sem það er með alþjóðavæðingunni, stendur heiminum af því meiri ógn en áður. Þar er Ísland síður en svo undanskilið með sínar náttúruauðlindir.
Með þetta í huga vil ég benda á ljóðið Fylgd, eftir Guðmund Böðvarsson. Ljóð sem helst allir Íslendingar, og ekki síst allir þingmenn ættu að kunna og hafa að leiðarljósi:
Komdu litli ljúfur,
labbi, pabba stúfur,
látum draumsins dúfur dvelja inni um sinn.
- heiður er himininn.
Blærinn faðmar bæinn,
býður út í daginn,
komdu, Kalli minn.

Göngum upp með ánni
inn hjá mosaflánni,
fram með gljúfragjánni
gegnum móans lyng,
-heyrirðu hvað ég syng?
Líkt og lambamóðir
leiti á fornar slóðir
innst í hlíðarhring.

Héðan sérðu hafið
hvítum ljóma vafið,
það á geymt og grafið
gull og perluskel,
ef þú veiðir vel.
En frammi á fjöllum háum,
fjarri sævi bláum
sefur gamalt sel.

Glitrar grund og vangur,
glóir sund og drangur.
Litli ferðalangur
láttu vakna nú
þína tryggð og trú.
- Lind í lautu streymir,
lyng á heiði dreymir,
- þetta land átt þú.

Hér bjó afi og amma
eins og pabbi og mamma.
Eina ævi og skamma
eignast hver um sig.
-stundum þröngan stig.
En þú átta að muna,
alla tilveruna,
að þetta land á þig.

Ef að illar vættir
inn um myrkragættir
bjóða svikasættir,
svo sem löngum ber
við í heimi hér.
Þá er ei þörf að velja:
Þú mátt aldrei selja
það úr hendi þér.

Göngum langar leiðir,
landið faðminn breiðir.
Allar götur greiðir
gamla landið mitt,
sýnir hjarta sitt.
Mundu mömmu ljúfur,
mundu pabba stúfur,
að þetta er landið þitt.
G.B.
Jóhann