MJÚK LJÓÐLIST, HARÐIR PENINGAR

Nánast enginn viti borinn Íslendingur nennti að pæla djúptí áður kunngjörðum stórdraumi um risavaxna rússneska olíubræðlsustöð á Vestfjörðum. Sú speglasjón rússneskra oligarka, kynnt af keyptum íslenskum  spunaköllum, olli engu uppnámi,  svo víðáttugalin var hún og ótrúverðug. Samt fór víst  einhver landssala fram, en jafnvel það er óstaðfest. Enginn nennir nú að leita að þessum ketti úti í mýri-enda úti ævintýri.

Nokkur ár eru síðan Kalmarborg í Svíþjóð var fífluð af kínverskum peningabjálfum. Stjórnendur borgar keyptu þá hugmynd, að kínamenn gerðu Kalmar að evrópskri viðskiptamiðstöð sinni. Borgarskipulagi var breytt, ráðist í fjárfestingar,öðrum framfaramöguleikum ýtt til hliðar. Kalmar átti að öðlast forna frægð og styrk. Til Kalmar streymdu kínverskir launaþrælar verktaka og hróflað var upp illa byggðum viðskiptahúsum í hvelli. Þannig endaði draumsýnin sú. Kínamenn hurfu og eftir standa illa byggð og hálfbyggð mannvirkin, krákum að leik. Kalmarborg í stórtapi, og stjórnendur niðurlægðir. Kínagullið reyndist Kalmar dýrt glópagull.

,,Tugmilljarða króna stórvirki" eru nú sögð fylgifiskur kaupa kínamanns á hálendisjörð norðanlands. Sumir íslendingar glotta, láta málið afskipt. Enn aðrir vara við brallinu. Loks eru þeir til sem fagna innilega og telja þetta vott um sigurgöngu alheimsvæðingar, helstu vonar Íslands. Margur setur kínaplönin fínu í skúffu með öllu öðru misjöfnu draumarugli. Lýstur  höfundur þessa, Huang Nubo, fer fram í kunnglegu gervi, umhverfisvænn og sjálfskapaður auðjöfur, fullur velvildar til Íslands. Gervið er einhvern veginn kunnuglegur standard.

Nubo er sagður bæði skáld og athafnaskáld í sömu persónu og mögulega vill hann sjálfur vel. Hann er þó bundinn lögmálum auðvaldsins og þau bera margan ofurliði. Eitthvað þurfa  Íslendingar að vita, t.d. um skil á skáldverki og veruleika,áður en auglýst draumsýn Huang Nubos er mátuð við veruleikann og meðtekin. Til dæmis eitthvað um mun á gulli og glópagulli.
Rósa

Fréttabréf