Fara í efni

HAFNA BER LANDSÖLU!

Ég vona að íslenskum yfirvöldum beri gæfa til að hafna kaupum Huang Nubos á Grímstöðum á Fjöllum. Fyrir því liggja margvísleg rök, t.d. þau að það felst mikil áhætta í því að selja fulltrúa stórveldis svo stóran hluta af Íslandi. Kínverskir einstaklingar kunna að vera hið besta fólk en kínverska ríkið metur hins vegar einstaklinga ekki mikils og fótum treður mannréttindi. Með fullri virðingu fyrir Kína þá verður það að segjast að þjóðin er erfið í samskiptum og afar ótraust í viðskiptum, fyrir því liggja margar staðreyndir sem óþarfi er að rekja hér. Það er alls ekki hægt að leggja að jöfnu kaupmann frá einræðisríki sem virðir ekki mannréttindi og fjárfesti frá lýðræðisríki þar sem mannréttindi eru hávegum höfð. Efnahagur Íslands er á réttri leið og það er mikilvægt að stefna að stöðugu, traustu og jöfnu fjármálakerfi. Þetta endalausa væl um að við verðum að fá erlenda fjárfesta er liður í græðgisvæðingu sem nýja Ísland verður að hafna ef ófarirnar eiga ekki að endurtaka sig.
Pétur