Fara í efni

HVERS VEGNA EIGA SKATT-GREIÐENDUR AÐ AÐSTOÐA LÁNADROTTNA?

Sæll Ögmundur.
Enn á ný berast fréttir um að stjórnvöld ætli að bjarga einkaaðilum, innlendum sem erlendum, sem lánað hafa gáleysislega til Hafnarfjarðar. Nú virðist eiga að búa til "fjármálagerning" með ríkisábyrgð sem gagnist lífeyrissjóðum svo þeir hinir sömu geti "kokkað sínar bækur" miðað við 3,5% raunávöxtunarkröfu. Því ítreka ég fyrri spurningar, hvaða rök, siðferðislegs eða hagfræðilegs eðlis liggja hér að baki?
Arnar Sigurðsson

Sæll. Þú vísar í fyrri skrif þín. Ég vil taka fram að bréf sem mér berast birti ég nær undantekningalaust hér á síðunni. Þegar síðunni berast bréf fæ ég jafnframt vísbendingu inn á almennan póst minn um að bréf hafi borist síðunni. Stundum gerist það að slík melding berst mér án þess að sjálft bréfið berist til síðunnar. Það á hins vegar ekki við um bréf sem mér barst frá þér 16. júní en aldrei biritst. þetta getur hent og eru nokkur slík óbirt bréf enn - því miður. Yfirleitt er skýringin sú að eitthvað kemur uppa, t.d. fjöldi bréfa berst samtímis eða eitthvað annað hendir. Ég bið þig og aðra hlutaðeigandi afsökunar á þessu. En júní bréfið þitt er svohljóðandi:
Sæll Ögmundur. Er möguleiki á að þú getir uppfrætt almenning í þessu landi um hvers vegna þú hyggst takmarka skaða einkaaðila sem lánað hafa gáleysislega til Álftaness með almannafé? Eins og þú veist eru sveitarfélög ekki aðfararhæf og því staða glannalegra lánveitenda vonlaus ef frá er talin Lánasjóður Sveitarfélaga sem getur einn tekið veð í útsvari. Ef fjárglæframennirnir þurfa að afskrifa 30%, jafngildir slíkt 2-3ja ára vöxtum! Hvaða sanngirni eða skynsemisrök búa þarna að baki?
Arnar Sigurðsson
Ég þakka þér þessi bréf Arnar og ætla að láta spurningar þínar standa og íhuga svarið sem snýr að sjálfum kjarna málsins: Hvar hvílir ábyrgðin í fjármálakreppu.
Fyrrum banakastjóri KB banka sagði á þenslutímanum eitthvað á þessa leið: Við erum ekki lengur íslenskur banki. Við erum bara banki.  Síðan uppgötvuðu Íslendingar að hann var íslenskur eftir allt saman því á okkur Á Íslendingum sem þjóð bitnaði hrunið fyrst og fremst.
Að hvaða marki almenningur eigi að axla ábyrgðir einkaaðila kom heldur betur til umræðu í Icesave deilunni. Þar hallaðist ég á sveif með þínum áherslum.
Þegar sveitarfélag er annars vegar vandast málið því svo getur farið að lánstraust þess þverri með öllu ef það er meðhöndlað eins og gjladþrota fyrirtæki. Það skýrir aðkomu ríkisins að fjárhagsvanda sveitarfélaga. Ekki gleyma því að inni í þessum pakka eða aðgerðapökkum er gert ráð fyrir mjög miklum afskriftum skulda við einkaaðila. En spurningar þínar þykja mér mjög góðar og verulega umhugsunarverðar.
Kv.
Ögmundur