Fara í efni

ÞREFALDUR Í VÍKINGALOTTÓINU

Sæll Ögmundur.
Kosturinn við grein þín í Fréttablaðinu í dag, þar sem þú fjallar um ritstjóra Fréttablaðsins og skoðun hans á fangelsisbyggingu, er að inntaki um það hvernig sumir sjálfstæðismenn vilja fara með skattfé almennings - sumir. Nýtt fangelsi má kosta hálfum milljarði meira en ella bara ef byggingin fer í svokallaða "einkaframkvæmd". Dæmigert fyrir þessa gerð af sjálfstæðismönnum sem sumir telja sig geta farið með sameiginlega sjóði okkar að eigin vild á hugmyndafræðilegum grundvelli. Fram til 2008 var algengt að ríkið tók á leigu húsnæði sem það þurfti undir starfsemi sína til langs tíma. Þeir sem reistu hús fyrir ríkið og leigðu því þau aftur gerðu venjulega verðtryggða samninga til langs tíma. Svona samningur í hendi var eins og þrefaldur Víkingalottóvinningur með aukaálagi. Þetta er önnur hlið á einkaframkvæmd.
Nú berast til dæmis af því fréttir að Landlæknisembættið hafi verið látið gera 25 ára verðtryggðan húsaleigusamning undir starfsemi sína. Nú er svo landlæknir að flytja og húsnæðið stendur autt, og hlýtur að gera þar sem nú á að fækka ríkisstofnunum og trimma þær til. Þú, ég og landlæknir sjálfur höldum áfram að greiða 25 ára leiguna í gegnum skattana okkar.
Þessi ráðstöfun almannafjár er ekkert minna en hneyksli og það þarf að taka saman yfirlit um þessi mál. Heimilislæknirinn minn sagði mér á dögunum að allar heilsugæslustöðvar á Reykjavíkursvæðinu, sem opnaðar hefðu verið í seinni tíð, væru svona gullgerðarvélar; langur leigusamningur, há leiga, sem ekki kemur að fullu fram vegna þess að málin eru bara skoðuð frá einum fjárlögum til annarra.
Nú ætti Fréttblaðið að fara í að diska upp upplýsingar um hve ríkið greiðir mikið í leigu á þessum kjörum, hverjum er greitt, hverjir eiga félögin sem fá greitt og hvaða fjármálaráðherra lét gera samninga. Eða með öðrum orðum: Hvaða embættismenn bera ábyrgð á því að skattfé almennings er sturtað niður með þessum hætti?
Kv.
Ólína