Fara í efni

GÖT Í FJÁRLÖGUM

Sæll Ögmundur.
Já, fyrrverandi Samgönguráðherra fer mikinn í aftursætinu og hendir rusli út um hliðargluggana en þeir sem þekkja hann vita betur og taka ekkert mark á þessu rausi. Staða ríkissjóðs er alvarleg og svo virðist að meirihluti Fjárlaganefndar beri þar höfuðábyrgð og sérstaklega formaður hennar. Ef ársreikningar fyrirtækja væru með öðrum eins götum og fjárlögin yrði örugglega hvellur. Afgreiðsla Fjárlaga án þess að gera ráð fyrir nokkurri launahækkun opinberra starfsmanna eru klækindi til að gefa ekki tóninn um ásættanlega launahækkun þeim til handa en skekkja um leið fjárlögin. Þá er væntanlega meðgjöf með Spkef verði af henni lögleysa í augum ESA þar sem ríkissjóður tekur allan pakkann skuldabréf og ríkisbréf ásamt innlánum þegar fært var á milli en átti samkvæmt lögum aðeins að ábyrgjast innlánin. Það má líka spyrja sig hvort að þörf sé á íbúðalánasjóði þegar bankar lána á lægri vöxtum og með meiri varfærni en sjóðurinn og spurning hvort að það sé ekki hin eina rétta stefna til þess að almenningi verði ekki sendur reikningurinn í formi afskrifta. Rekstur sjóðsins kostar á ári um 1.6 milljarða og Byggðastofnun um 1 milljarð en það fyrirbrigði er úrelt og á að heyra undir bankastofnanir enda eru afföll og greiðsluþrot slík að þau standast ekki skoðun og þar kostar reksturinn um 1 milljarð. Landsbankinn gæti tekið yfir báðar þessar stofnanir enda 100% í ríkiseigu og spara stórt. Hagræðing og samþjöppun í ríkisgeiranum á sama rétt á sér og hjá einkaaðilum en þær sameiningar meðal annars ráðuneyta hefur lítið sparað annað en bíl og bílstjóra ráðherra en engum er sagt upp og hver er þá hagræðingin? Stjórnsýslan telur yfir 25.000 manns í 340.000 manna samfélagi sem þætti frábært á hvaða mælikvarða sem er í kring um okkur en það verður að draga saman kostnað fækka stofnunum og þjappa saman með minni mannskap annars höldum við áfram á botninum í ríkisútgjöldum.
Þór Gunnlaugsson