ERU FJÁRMÁLAMENN KOMNIR Í STJÓRNSÝSLUNA?
Sæll Ögmundur.
Ég hlustaði á morgunútvarpið í Ríkisútvarpinu fyrir helgi þar sem
fjármálaráðherrann var spurður út í afstöðu sína til ágreinings
innan ríkisstjórnarinnar um að ríkið byggi fangelsi (hugmynd
Ögmundar) eða að einkaaðilar byggi það (hugmynd Jóhönnu). Mér
fannst gaman að hlusta á Steingrím og jánkaði hverju orði eins og
ég var vön að gera þegar Jón Baldvin talaði hér á árum áður. Það
var þó eitthvað í viðtalinu sem sat í mér og eftir að hafa hlustað
aftur á það á netinu eftir helgina (http://dagskra.ruv.is/ras2/4540619/2011/07/22/5/
) verð ég að játa að áhyggjur mínar af ríkisfármálunum hafa aukist
frá því sem áður var. Steingrímur lýsti vandanum með eftirfarandi
hætti og þetta er nánast orðrétt eftir haft: Ríkið hefur einsett
sér að ná niður hallarekstri. Ný framkvæmd sem ríkið fjármagnar við
þau skilyrði mun annaðhvort kalla á meiri niðurskurð, meiri
skattahækkanir eða meiri halla. Framkvæmd á vegum ríkisins við
þessi skilyrði mun kalla á lántöku þar sem ríkið þarf að bera
fjármagnskostnað af þeim lánum. Því þarf að leita lausna þar sem
hinn brýni vandi ríkisfjármálanna væri ekki aukinn, ríkið myndi
ekki sjálft leggja fram fé og bókfæra það í sínum fjárlögum. Nú
deilir enginn um að ríkið mun greiða fyrir fangelsið að endingu
óháð því hvort það er gert með langtímaleigu eða afborgunum af
láni. Þessi fjármögnunarkostnaður sem Steingrímur vísaði til að
myndi annars lenda á ríkinu mun lenda þar fyrir rest í gegnum
langtímaleigusamning. Alls ekki ólíkt því sem myndi gerast með
afborgunum af langtímaláni. En það sem olli mér óhug var frekar að
það væri markmið að fegra bókhald ríkisins með því að gera samninga
með ríkisábyrgð til áratuga og velja þann kost frekar vegna þess að
þá lítur út fyrir að ríkið sé að ná árangri. Eru menn ekki bara að
tala um bókhaldsfiff þar sem raunverulegar skuldbindingar og
kostnaður við framkvæmdir virðast aukaatriði. Í þessum hugarheimi
er efnahagsreikningurinn eitthvað sem á að sýna góða mynd og byggja
upp trúverðugleika. Er þetta kannski afleiðing þess hvað það eru
margir úr bönkunum komnir í stjórnsýsluna að þeir séu að matreiða
svipaðar lausnir og bankarnir byggðu veldi sitt?
Sigurbjörg