ÞJÓÐIN Á BETRA SKILIÐ!

Hafís, hungur og hallæri þjökuðu öldum saman íslensku þjóðina með tilheyrandi mannfelli. Hins vegar stóð eitt mesta niðurlægingartímabil þjóðarinnar frá 1991 til 2008. Áróður, undirbúningur og mótun hugarfars almennings hafði við upphaf tímabilsins staðið yfir í um áratug, eða frá 1979, þegar boðuð var leiftursóknin svokallaða. Undirbúningurinn hafði aðeins eitt markmið; að ryðja götu takmarkalausrar markaðshyggju og einkaeignarréttar á Íslandi. Með því að virkja og höfða til lægstu hvata mannsins, s.s. gróðafíknarinnar, tókst smám saman að vinna frjálshyggjunni fylgi, með hugarfarsbreytingu, sem nægði til yfirtöku hennar á íslensku samfélagi við upphaf tíunda áratugarins. 
Þessi lágkúrulega kenning, frjálshyggjan, boðaði þau "sannindi" að gæfist fjárgróðamönnum sem allramest frelsi og svigrúm til þess að svala gróðafíkn sinni myndi allur almenningur jafnframt græða og njóta góðs af. Ýmsar staðlaðar setningar voru endurteknar í sífellu og hófust gjarnan á þá leið að "...ríkið ætti ekki að eiga og reka....." síðan var talinn upp margs konar rekstur. Yfirleitt var setningin botnuð á þann hátt að "...einkaaðilar gætu sinnt rekstrinum miklu betur...". Aldrei var sýndur neinn samanburður á ríkisrekstri eða einkarekstri sem sannaði þessar fullyrðingar, eða gerði þær að minnsta kosti trúverðugar. Þarna var einfaldlega notuð gamalkunn aðferð; að endurtaka í sífellu rangar fullyrðingar þangað til þeim yrði trúað af sem flestum. Dómur sögunnar liggur nú fyrir en eðli málsins samkvæmt kom hann of seint. 
 Upphaf græðgisvæðingar á Íslandi má rekja til verktakastarfsemi á vegum bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli en þar makaði krókinn, áratugum saman, pólitísk klíka sem tengdist náið spilltustu stjórnmálaöflunum á Íslandi. Græðgisvæðingin var þó lengi afmörkuð við ákveðin svið þjóðlífsins. Sú breyting varð hins vegar á með yfirtöku frjálshyggjunnar að ekkert svið var lengur undanskilið; allt skyldi lúta lögmálum markaðarins og hafa sitt verð, enda boðaði þessi trúarstefna (frjálshyggjan) að allir hlutir hefði sitt verð, hvað sem hver segði. 
 Nokkrir kunnir lýðskrumarar sem nú sitja á Alþingi létu ekki sitt eftir liggja við boðun "fagnaðarerindisins"; flestar ríkiseignir bæri að selja og koma í hendur "hæfustu manna landsins" sem oftast voru í sama stjórnmálaflokki og viðkomandi þingmaður sem áróðurinn rak. Notaðar voru skreytingar eins og "tilboð" og réttur almennings til kaupanna. Öllum mátti þó ljóst vera að slíkt tal væri hreint lýðskrum enda löngu ákveðið hver eða hverjir skyldu njóta "góðra gjafa ríkisins". Hefur dómur sögunnar einmitt staðfest það.
 Yfirlýst markmið laga um fiskveiðistjórnun var á sínum tíma verndun fiskistofna við Ísland, þ.e. að koma í veg fyrir ofveiði. Undirliggjandi markmið var þó hið sama og ætíð áður; að gera fjárplógsmönnum fært að maka krókinn á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar (íslensku) á kostnað almennings, að tryggja einokun fjárglæframanna að auðlindinni. Því miður sýnir reynslan að þetta tókst og einkennir mjög tímabil niðurlægingarinnar sem í upphafi var nefnt. Vonandi tekst að snúa þessu glæpsamlega athæfi við sem allra fyrst. Eðlilegast væri að þeir sem komu kerfinu á sættu lagalegri ábyrgð vegna þess, hvort sem um er að ræða hagsmunaklíkur eða gerspillta stjórnmálamenn sem sumir hverjir hafa síðan horfið til annara starfa. Glæpamennsku síðustu ár er óþarft að rekja hér enda mörg mál nú til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara. Hitt er ljóst að þar er um að ræða framhald á frjálshyggjunni og græðgisvæðingunni sem svo mjög tók að móta íslenskt þjóðlíf í byrjun tíunda áratugarins og lauk með algeru hruni íslensks þjóðfélags, fjárhagslegu og andlegu. Nú sitja ýmsir skemmdavargar frjálshyggjunnar í æðstu stöðum, sem forsvarsmenn atvinnulífs, á Alþingi og víðar. Flestir þeir vargar eiga sameiginlegt að vera enn siðlausir trúboðar frjálshyggju og einkaeignarréttar (nægir að nefna vatnalögin og kvótamálin), skeyta hvorki um skömm né heiður, afneita allri ábyrgð á eigin orðum og gerðum, rífa kjaft og svara út í hött þegar böndin berast að þætti þeirra í hruninu og afleiðingum þess. Kominn er tími til að gefa þessum mönnum ævarandi og launalaust leyfi frá íslenskum stjórnmálum og þjóðmálum. Ísland hefur ekki efni á meiri frjálshyggju og græðgisvæðingu. Íslenska þjóðin hlýtur að eiga betri örlög skilið en leiðsögn og afskipti þessara frjálshyggjumanna af íslensku þjóðlífi.
Kári

Fréttabréf