KOSTNAÐURINN VIÐ AÐ KJÓSA

Hálærðir héldu því fram að ef þjóðin fengi að kjósa um Icesave yrði illmögulegt að spá fyrir um afleiðingarnar. En þær gætu orðið mjög alvarlegar. Sumir spekingarnir leyfa sér að halda því enn fram að kostnaðurinn við kosningarnar hafi hugsanlega verið meiri en sparnaðurinn af Icesave III. Þeir hafa greinilega ekki gert sér grein fyrir því að bestu viðskipti ársins 2010 var höfnun Icesave og halda kanski ennþá að bestu viðskipti 2007 hafi verið einmitt Icesave.

Ekkert raunhæft mat hefur verið lagt fram um "kostnað" við að leyfa þjóðinni að kjósa. Fyrir ári heyrðist úr fílabeinsturnum að íslenskir aðilar myndu ekki geta fengið fjármagn til fjárfestinga því erlendir lánamarkaðir myndu lokast Íslendingum með þeim afleiðingum að ríkisjóður færi í þrot fyrir 2012. Raunin er sú að stöndugum fyrirtækjum hefur tekist að verða sér úti um erlent fjármagn en illa rekin fyrirtæki hafa þurft að horfast í augu við raunveruleikann. Landsvirkjun, Marel, Icelandic group og Össur hafa sýnt að íslensk fyrirtæki sem kunna sinn rekstur eru traustsins verð og fjármögnun þeirra hefur verið tryggð. Orkuveita Reykjavíkur og Reykjaneshöfn eru dæmi um sorglega rekin fyrirtæki og það láir enginn þeim sem lána þeim ekki.

Oft hefur verið talað um að Evrópski fjárfestingarbankinn vilji ekki lána Landsvirkjun fyrr en Íslendingar gangi að kröfum Breta og Hollendinga um Icesave. Aldrei er þó minnst á að fjármálaráðherrar Breta og Hollendinga sitja í stjórn bankans.

Krónan fellur, skuldatryggingarálagið rís og stjórnin springur. Úlfur, úlfur. Einmitt hið gagnstæða hefur gerst.

Raunhæft mat á sparnaðinum og jákvæðum áhrifum höfnunar Icesave er bæði trúverðugt og opinbert. Síðastliðinn mars tilkynnti seðlabankastjóri, í ársfundarræðu sinni, að bankinn hefði nýtt sér óvissuna vegan Icesave og keypt til baka skuldir ríkisjóðs á kosta kjörum. Þessi aðgerð skilaði þeim árangri að gjaldeyrisforðinn dugði fyrir afborgunum ríkisjóðs út árið 2012 auk þess að lækka erlendar skuldir ríkissjóðs með minni tilkostnaði en ella, samkvæmt bankastjóranum. Þessi aðgerð var síðan endurtekin síðastliðið sumar og aftur fyrir jól. Áætla má að úrræði Seðlabankans hafi sparað skattgreiðendum um 5 milljarða króna. Þá eru ótalin Avens viðskiptin, þar sem Seðlabankinn nýtti sér vilja erlendra aðila til að selja krónueignir á töluverðum afslætti. Þau viðskipti eru talin hafa lækkað skuldastöðu þjóðarbúsins um 3.5% af þjóðarframleiðslu eða um 50 milljarða.

Við þetta bætist að nú liggja á borðinu Icesave samningadrög, þar sem Bretar og Hollendingar hafa þurft að viðurkenna að kröfur þeirra voru langt umfram það sem Brussel viðmiðin gerðu ráð fyrir. Það er mat samninganefndarinnar að sparnaðurinn frá fyrri samningi sé 110 milljarðar.

Með þessum sparnaði má reka heilbrigðis- og menntakerfi landsins í heilt ár eða háskóla landsins í áratug.

Áhyggjur af greiðslugetu ríkisjóðs út árið 2012 eru nú hverfandi. Vinir okkar á Norðurlöndum og í Pólandi hafa staðið við sín loforð. Auk þess hefur Seðlabankinn keypt mikið magn af gjaldeyri á gjaldeyrismarkaði og af  lífeyrissjóðum auk þess að endurheimta hluta af FIH láninu. Gjaldeyrisforði landsins hefur aldrei verið jafn burðugur.

Enn hefur ekki verið sýnt fram á greiðsluskyldu Íslands. Nú eru rökin fyrir því að samþykkja Icesave III þau að Icesave I og II voru miklu verri. Það sé of tímafrekt að leita réttar sins. Sæma slík rök sjálfstæðri þjóð?

Kjósi Íslendingar hinsvegar að taka þátt í þeim kostnaði sem Icesave hafði í för með sér, þurfum við að geta staðið bein í baki. Á yfirborðinu lítur út fyrir að hægt sé að sætta sig við núverandi samning. Sé skyggnst undir yfirborðið kveður hann þó á um greiðslur langt fram yfir það sem lög og Evróputilskipanir kveða á um að Tryggingasjóðurinnistæðueigenda (TIF) eigi að greiða. Samningurinn er heldur ekki í samræmi við Brussel viðmiðin.

Ef því veigamikla ákvæði, sem kennt er við Ragnar Hall, væri bætt inn í samninginn þá væri skuld sjóðsins orðin rétt reiknuð. Íslendingar gætu þá með reisn veitt TIF ríkisábyrgð þrátt fyrir að engin lagaleg skylda sé fyrir ríkisábyrgð.
Áhugamaður um gagnrýna hugsun

Fréttabréf