Fara í efni

UNDIRFERLI?

Ég hef ekki alltaf deilt með þér skoðunum Ögmundur, en talið þig þó þokkalega heiðarlegan, án tilburða til undirferlis. Nú kemur í ljós að þú situr að svikráðum með lökustu félögum VG gegn eigin ríkisstjórn og öðrum samstarfsfélögum! Þú hlýtur að gera þér grein fyrir að þetta getur ekki gengið upp. Vinstri menn á Íslandi hafa aldrei getað unnið saman. Þegar þeir komast til valda þá eru það alltaf einhverjir meðal þeirra sem fara að dansa þegar herrarnir í Hádegismóum þenja nikkuna. Einu sinni var það Finnbogi Rútur, þá Hannibal, svo Eðvarð og Björn og þá hefur Hjörleifur Guttormsson, með óraunsæjum kröfum, ekki látið sitt eftir liggja með að brjóta niður tilraunir til að byggja upp félagslega réttlátt samfélag á Íslandi. Og nú er röðin komin að þér að taka sporið í takt við Morgunblaðsmúsíkina. Menn verða að gera sér grein fyrir að "Róm var ekki byggð á einum degi". Það tekur tíma að byggja upp og fylgja stefnumálum sínum eftir. Þess vegna ber að þakka og styðja hvert hænufet sem stigið er í átt til réttlætis. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hefur tekið allnokkur slík hænuskref og þau eru mikilvæg að vernda og styðja. Í þessu sambandi vil ég benda á að það tók Sjálfstæðisflokkinn rúm sjötíu ár að fylgja stefnumálum sínum eftr og koma Íslandi á hausinn.
Pétur

Þakka þér bréfið Pétur. Þú segist ekki alltaf hafa deilt skoðunum með mér. Það er skrítið orðalag frá manni sem hefur skilgreint mig með þeim hætti sem þú stundum hefur gert hér á síðunni. Dæmi: https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/edlislaeg-personuroskun
Bréf þitt birti ég að sjálfsögðu en þakka mínum sæla fyrir að menn einsog þú stjórna ekki heiminum - einir. Þetta snýst nefnilega um að hafa leyfi til að hafa skoðun, vera sammála eða ósammála eftir atvikum án þess að hljóta af óvild og fordæmingu. Skoðanafresli er hluti af velferðarþjóðfélagi og eftir hrunið hefur það runnið upp fyrir mörgum - greinilega ekki öllum - hve mikilvægt það er að við temjum okkur ný og opnari viðhorf til einstaklinga og stjórnmálaflokka. Varðandi meint undirferli vil ég segja þér það að ég fór ekki á bak við nokkurn mann í þessu "hjásetumáli" sem nú er til umræðu. Alls ekki félaga mína í VG sem verið hafa ósammála mér í ýmsu.
Af hverju ætla öllum sem eru á öndverðum meiði við þig alltaf eitthvað illt? 
Ögmundur