Fara í efni

VERÐUM EKKI ÍSKLUMPAR Í KERFISFROSTINU

Sæll Ögmundur.
Enginn efast um fjárskort ríkisins í tengslum við brýna framkvæmdaþörf í fangelsismálum. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að Schengen sem og flestar aðrar tengingar við hið samevrópska reglufargan hafi orðið okkur til meiri ógæfu en ábata. Líklega skortir vilja og pólitískt þrek til að kippa því til baka en því væru áreiðanlega margir fylgjandi í dag. Ég hef lengi séð fyrir mér lausn til bráðabirgða í vistun meðfærilegra fanga. Vistheimilið Arnarholt á Kjalarnesi er næstum fullbúið húsnæði fyrir slíka starfsemi en það hefur staðið autt í líklega tvö ár. Hvers vegna eru ekki svona byggingar sem eru í opinberri eigu teknar í notkun svo leysa megi viðvarandi húsnæðisvanda ríkisins af ýmsum toga?
Það eru margar rúmgóðar byggingar í bærilegu ástandi víðs vegar um landið sem eru orðnar vandamál ríkis og sveitarfélaga en bíða þess eins að grotna niður. Mig grunar að hindranirnar séu af sömu rót og venjulega - eða þær að þetta samrýmist ekki kröfum dagsins. En það er vissa fyrir því að stórir hópar glæpamanna af erlendu þjóðerni sem hingað flykkjast og hafa flykkst undangengin missiri- og ganga lausir vegna skorts á úrræðum svara ekki kröfum neinna daga.
Ég hef enga trú á því að nýtt og nútímalegt fangelsi rísi hér fyrr en þessi mál eru orðin samfélagsvá af alvarlegri stærð. Ég nefndi útlenda glæpamenn en auðvitað eigum við fjölda ógæfumanna af eigin þjóðerni. Mér skilst að á Litla- Hrauni sé fjöldi fanga með annan bakgrunn en ofbeldistilburði. Þessir fangar eiga ekki heima með forhertum glæpalýð og af fréttum virðist vistun þessara rólegu fanga ganga vel á Bitru. Við megum ekki verða ísklumpar í fjandans kerfisfrostinu sem búið er að heltaka þjóðina og sækir í sig veðrið fremur en hitt. Kveðjur og góðar óskir!
Árni Gunnarsson