Fara í efni

ANARKISTAR ERU SJÁLFT LÝÐRÆÐIÐ!

Sæll Ögmundur.
"Mjök erum tregt / tungu at hræra" hefur Egill (Er-úlfur?) upp raust sína í upphafi Sonatorreks og þar litlu síðar "Opt kemr mér / mána bjarnar / í byrvind / bræðraleysi, / hyggjumk um, / es hildr þróask, / nýsumk hins / ok hygg at því / hverr mér hugaðr / á hlið standi / annarr þegn / við óðræði." Þessi mögnuðu orð Egils enduróma nú með djúpri skírskotun til þeirra samfélagslegu atburða sem íslensk þjóð verður nú vitni að, ekki síst úrræðaleysi þeirra sem telja sig æðri öðrum og vilja stjórna öðrum með vald-beitingu. Þú, Ögmundur Jónasson, ert nú Dómsmála-ráð-herra í refskák þeirri sem almenningur þessa lands fær litlu um ráðið í hinu marg-lofaða "opna og virka lýðræði". Níu-menningunum er enn haldið milli vonar og ótta og þér er tungu tregt at hræra meðan beðið er eftir fulltrúa almennings, Ögmundi Jónassyni, sem hugaður standi gegn óðræði. Nú, sem fyrr, er það lenska vald-ráða-manna í vél-ræði þeirra að klína anarkista-stimpli á sem flesta mótmælendur og gera þá varasama í augum almennings, jafnvel stór-hættulega, jafnvel mestu ógnina við lýðræðið. Þannig séu þeir úrkast sem megi níða af spunaveitum fjölmiðla. Ekkert er fjær sanni, því anarkistar eru lýðræðið sjálft, en án nómenklatúru og ofvaxins ríkis-valds. Þetta veistu jafnvel og ég Ögmundur. Og þetta vita allir ... innst inni ... og að bírókratían er skrímsli sem blóðsýgur almenning til að geta blóðsogið hann enn meir og beitt stökkbreyttum vafningum og vistarböndum og vaxta-okri og ÞÖGGUN. Það er vitað af þeim sem vilja vita, að það voru anarkistar sem höfðu þann dug sem dugði til að rífa táknmynd viðurstyggðarinnar, hakakrossinn þýska, af þeim sem gæla við nasisma, og köstuðu nasista-fánanum á bálið á mótmælunum á Austurvelli. Hið marg-róma og sjálfum-glaða ríkis-vald hefði aldrei þorað að ganga svo hreint til verks, varðandi þó það sem við vitum öll ... innst inni ... að er raunveruleg ógn við samfélag okkar sem þjóðar, nú á tímum. Nú spyr ég þig Ögmundur tveggja spurninga: 1) Er ekki mál að linni ofsóknum ríkis-valdsins gegn níu-menningunm og að þú höggvir á einu augabragði á þennan fáránlega Gordíons-hnút, hnýttan af skrifstofustjóra og forseta Alþingis? 2) Eða bætist nú enn í ákærurnar ... og að anarkistar verði nú lögsóttir af ríkis-valdinu fyrir að kasta nasista-fána á bálið og brenna? Það væri alveg eftir öðru hvað varðar fáránleikann og skinhelgi valda-kerfisins ... í þágu hverra?
Pétur Örn Björnsson

Þakka þér bréfið Pétur Örn. Ekki hef ég trú á að bætist í ákærurnar. Mótmælin gengu stóráfallalaust fyrir sig. Skilaboðin fóru ekki á milli mála.
Kv.
Ögmundur