Fara í efni

ÁLIT ÚT OG SUÐUR

Sæll Ögmundur.

Mig hefur lengi grunað að stjórnmálamenn og þeir sem gegna embættum á vegum ríkis og sveitarfélaga hafi ekki lesið skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Ekki er þetta vegna þess, held ég, að viðkomandi séu öll ólæs, þótt eitthvað kunni að skorta uppá næman skilningi fyrir samhengi hlutanna. Ég held menn hafi ekki nennt að lesa, eða þá að skýrslan hafi verið lesin á sama hátt og sagt var að ungir menn hafi lesið erlendar bókmenntir í skáldverkinu Gunnar og Kjartan eftir Véstein Lúðvíksson. Þetta segi ég i tilefni þess að viðskiptaráðherra lét gera enn eitt minnisblaðið, og nú um skyldu ríkisins til að standa undir innistæðutryggingum TIFs, eins og hann kallast í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Svo virðist sem augu nefndarmanna í efnahags- og viðskiptanefnd, sem þú situr í Ögmundur, hafi upplokist við lestur minnisblaðsins og efni þess hafi verið þér og ykkur framandi - að í því séu splúnkunýjar fréttir. Svo er ekki. Það einasta sem er óvenjulegt varðandi þetta minnisblað er, að fyrrverandi starfsmaður viðskiptaráðuneytisins, sem átti að gæta almannahags í fyrra starfi sínu, skuli nú vera látin taka saman minnisblað á margföldum taxta starfsmanna viðskiptaráðuneytisins fyrir þetta sama ráðuneyti. Enn ein staðfesting á því að minnisblöð og ráðherrann fara ekki alltaf saman.
Í fimmta bindi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er öllu því svarað sem viðskiptaráðuneytið lét fyrrverandi starfsmann sinn nú taka saman. Þetta er hægt að lesa á 117 blaðsíðum, frá 193 til 310. Þessar síður jafnast á við bestu bækur Arnaldar Indriðasonar og Franks Morrisons Spillane og geta menn svo við lesturinn fengið sérstakan bónus og leikið sér með hvern mætti setja í hlutverk Mikes Hammers í þessu sambandi.
Það má með góðum vilja, eða vondum, lesa blaðsíðurnar 193 til 310 í fimmta bindinu sem einn samfelldan áfellisdóm samandregin yfir íslenskri stjórnsýslu enda eru þar í hlutverkum ráðherrar og ráðuneytisstjóra og háttsettir embættismenn stjórnsýslunnar, núverandi og fyrrverandi.
Fyrir utan fimmta heftið almennt, sem allir ættu að lesa, lærðir menn og leikir, kjörnir menn og valdir, bendi ég á síðurnar 300, 307, 309 og kaflann 17.11.2 sem er einkar fróðlegur og eftirfarandi er tekið úr: "Áslaug Árnadóttir, settur ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu frá miðjum desember 2007 til 1. ágúst 2008, og formaður stjórnar TIF frá febrúar 2008, sagði að hún hefði alltaf litið svo á að það væri undirliggjandi skilningur að ríkið þyrfti alla vega að koma með lán en kannski ekki að ríkið þyrfti að borga þetta beint. Þetta hefði þó aldrei verið rætt í botn. Innan stjórnar TIF hefði verið talið eðlilegt að ríkið kæmi að þessu máli með einhverjum hætti en það hefði ekki verið lagst í neina lögfræðilega skoðun á því hvort ríkið bæri ábyrgð á skuldbindingum TIF eða ekki fyrr en komið var fram í október. Þá hefði stjórnin á fundi 13. október 2008 samþykkt að óska eftir lögfræðiáliti frá lögfræðingum sjóðsins. Sérstaklega aðspurð um það hvort hún hefði í starfi sínu innan samráðshóps stjórnvalda gengið út frá því að ríkið bæri ábyrgð á því að TIF gæti staðið við skuldbindingar sínar svaraði Áslaug að svo hefði verið en það hefði þó ekki mikið verið rætt og þegar að því kom hafi fulltrúi fjármálaráðuneytisins, þ.e. Baldur Guðlaugsson, ekki verið sammála henni. Áslaug var líka spurð að því á hverju sú afstaða í minnisblaði sem tekið var saman í viðskiptaráðuneytinu 15. október 2008, að það leiddi af þjóðréttarlegum skuldbindingum að ríkið bæri ábyrgð á því að tryggja að innstæðueigendur fengju lágmarkstrygginguna greidda, væri byggð. Svar Áslaugar var að þetta hefði verið álit lögfræðinga ráðuneytisins og enginn utanaðkomandi hefði verið fenginn til að fjalla um þetta. Áslaug sagði það hafa verið sinn skilning að greiðsluskyldu ríkisins leiddi af því að EES-samningurinn kvæði á um að ríkið ætti að setja upp innstæðutryggingakerfi og ef ríkið setti upp kerfi sem ekki virkaði yrði engu að síður að borga. Það væri á ábyrgð ríkisins að hjálpa tryggingarsjóðnum. Áslaug sagði að viðskiptaráðherra hefði verið gerð grein fyrir þessum skilningi í samtölum en þetta mál hefði í raun ekki verið mikið rætt áður en til þess kom að svara þurfti fyrirspurnarbréfum erlendis frá þegar komið var fram í ágúst og september, og sérstaklega í október 2008." (Undirstrikun höf.)
Þessi bútur úr áliti lögfræðingsins sem tók saman minnisblaðið fyrir fyrrum yfirboðara sína í viðskiptaráðuneytinu er hér ekki sett fram til að gera lítið úr henni heldur til að vekja athygli á viðskiptaháttum viðskiptaráðuneytsins, og hversu ósjálfstæð stjórnsýslan íslenska er, að geta ekki lesið úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis það sem þar er sett á blað. Af þessu tilefni og öðrum má spyrja: Til hvers gaf Alþingi út skýrsluna? Þarf ritað mál á Íslandi virkilega að vera innan við 700 slög svo menn nenni nú að lesa anno 2010?
Kv.
Hafsteinn