VIÐSKIPTA-ENSKUMENN
Í janúar 2006 þegar gagnrýnir menn fóru að óttast um bankana,
íslenska fjármálakerfið, héldu systurnar Viðskiptaráð og
ríkisstjórnin því að mörlandanum að fjármálasnillingar riðu um
héruð bæði hér og um víða veröld. Framtíðin var björt og Halldór
Ásgrímsson, sem rannsóknarnefnd Alþingis talaði ekki við ef marka
má viðmælendalista nefndarinnar, hélt ræðu hjá Viðskiptaráði og
vildi stofna alþjóðlega fjármálamiðstöð á Íslandi. "Að mínu viti
þurfa stjórnvöld og atvinnulíf að sameinast um það metnaðarfulla
verkefni að koma fjármálaþjónustu hér á landi á svipað þróunarstig
og best gerist annars staðar, í löndum eins og Bretlandi, Hollandi,
Írlandi, Lúxemborg og Sviss."
Sá forsætisráðherra þessi fyrir sér að svona fjármálamiðstöð yrði
að veruleika 2015. Þetta er rifjað upp hér til að undirstrika að
vitleysan reið ekki við einteyming í aðdraganda hrunsins.
Í þessu sambandi ályktaði bankaráð eins stórbankans og eitthvað af
þessum samböndum atvinnurekenda, þar sem sátu sumir þeir sem nú
hafa flúið land af skömm, að mörlandinn þyrfti að fara að tala
ensku. Enska skyldi verða háskólamóðurmálið og öll bankaviðskiptin
skyldu fara fram á ensku. Sumir menn, sparsamir, þorðu lengi vel
ekki að fara í banka í Reykjavík af ótta við að þurfa að gera sig
skiljanlega á ensku þegar þeir ætluðu að taka út þúsundkall. Aðrir
þorðu ekki að hringja í viðskiptabanka sinn.
Kemur það ekki á óvart, að hinir miklu enskumenn skuli nú bera við
vankunnáttu í ensku, þegar þeir reyna, hver um annan þveran, að
koma sér undan yfirheyrslum í landi þar sem þeir sóttu sér lán?
Skrítið þar sem færa má gild rök fyrir því að þeir hafi stolið,
bæði á ensku og íslensku.
Kveðja,
Ólína