TEKJUR OG SKULDIR

Alveg magnaðir sleggjudómar hjá þér Ögmundur,ef rétt er haft eftir þér að hálaunafólk skuli borga meira eða koma sér í burtu af eyjunni ÞINNI !! grænu. Ég og konan mín erum bæði með háskólagráðu, ég kláraði fyrir tveimur árum síðan, við erum skuldug uppfyrir haus af verðtryggðum námslánum og vorum ekki að græða á 2007 bólunni. Nú er ég að fara að borga af öllum þessum lánum sem ég tók á námsárunum til að mennta mig, en nei ríkið vill sitt og þú talar niður til okkar sem finnst nóg komið. Segir að ef við mótmælum getum við bara komið okkur burtu. Maður með milljón á mánuði borgar núna um 5 milljónir í skatta á ári, en maður með 300.000 á mánuði borgar 900.000 á ári, við fáum sömu þjónustuna en þú vilt að við borgum meira annars getum við hunskast burt. Það er ljóst Ögmundur þú sérð fleiri atkvæði hjá lágtekjufólki.
Guðfinnur

Þakka þér bréfið. Ég hef talað fyrir því að skattkerfinu sé ekki einvörðungu beitt til tekjuöflunar heldur einnig tekjujöfnunar. Þannig hef ég sagt að horfa þurfi til tekna og skuldsetningar, bæði vegna húsnæðislána og námslána, í senn. Mér fyndist þannig eðlilegt svo dæmi sé tekið að greiðslur vegna námslána verði frádráttarbærar frá skatti. Það var ekki meining mín að tala niður til þín eða annarra og hef ég reyndar reynt að minna á það í viðtölum um þetta efni að þegar ég tala um hátekjufólk þá er ég að tala um fólk með himinháar tekjur. Það er engin nýlunda að slíkt fólk hafi í hótunum við þá sem eru í lægri kantinum eða liggja í meðaltekjum og til þessa hóps er ég að beina skeytum mínum.
Ögmundur

Fréttabréf