Fara í efni

RÁÐ TIL BÖRGÓLFS THORS

Loksins kom að því að einhver hinna meintu höfunda glundroðasamfélagsins steig upp og settist við hlið lánadrottna sinna til sáttagjörða.
Björgólfur Thor hefur náð samningum um lendingu 1200 milljarða og ætlar að efna þá á næstu fimm árum. Þetta þýðir að á hverjum mánuði þarf hann að reiða fram kr 20 milljarða og hefur þá ekki verið tekið tillit til vaxtafærslna, en með varúðarfærslu eru þeir aldrei undir 2,25 prósent sem gera rúma 5 milljarða á ári. Björgólfur er stórhuga maður og hefur margoft sýnt það í viðskiptum sínum, eins og með actavis, play, ccp og nú síðast gagnaver verne holdings, allt eru þetta fyrirtæki sem eru með hvað hæsta framlegð hvert á sínum vetvangi.
Hins vegar stingur það mann í augu þegar sú staðreynd er viðblasandi að bara til að greiða mánaðarafborgun lánsins þarf hann að hafa hverju sinni handbærar meðalævitekjur 35 háskólaprófessora og eru þeir nú ekki að þiggja einhver slökkviliðsmannalaun. Og til að setja þetta í enn öfgakenndara samhengi þá eru heildarþjóðarskuldir Haití 270 milljónir dollara eða um 34 milljarðar sem AGS títtnefndur var nú nýlega að afskrifa. Það er aðeins rétt rúmlega mánaðarafborgun samkomulagsins. Alþjóðasamfélagið margfræga og umrædda lofaði Haitíbúum í tilfinningahita og umfjöllunaruppsveiflunni í janúar síðastliðnum tíu milljörðum dollara sem það dregur nú lappirnar við að efna vegna bágs ástands, en það eru jú 1.290 milljarðar ísl króna eða sama upphæð og samkomulag Björgólfs hljóðar uppá.
Ég persónulega óska Björgólfi alls hins bezta á nýupplöggðu ferðalagi sínu og vona að honum takist áform sín, en eitt ráð vil ég gefa honum ef hann skyldi lesa þetta, en það er að bæði hann og allir sem hjá honum vinna verða að mæta snemma alla daga vikunnar og þiggja lág laun fyrir, ellegar mun þetta ekki takast.
Kv.
Óskar K Guðmundsson fisksali