Fara í efni

ORKUGEIRANN ÁFRAM Í ALMANNAEIGN

Heill og sæll Ögmundur sem og allir góðir hálsar sem lesa heimasíðuna þína Ögmundur. Í Fréttablaðinu í gær er mjög vel ritaður pistill eftir Jón Þórisson arkitekt og aðstoðarmann Evu Joly: Nú þarf að stöðva hrunið.
Í pistlinum flettir Jón ofan af þeim furðulega blekkingarleik sem vissir íhaldsmenn hafa beitt landsmenn á undanförnum árum. Þeir vilja semja við erlendan braskara um aðgang að orkulindum landsmanna á óvenjulega hagstæðum kjörum og það á kostnað okkar sjálfra! Innlend orkufyrirtæki voru gerð verðlaus með bókhaldsblekkingum í hruninu en þar töpuðu íslenskir lífeyrissjóðir og einstaklingar sem höfðu treyst þessum sömu stjórnmálamönnum að þeir væru að leggja sparnað sinn í arðvænlegt fyrirtæki með beinhörðum peningum sem við launþegar höfum margfalt greitt skatta okkar af.
Jón Þórisson bendir á að Magma braskarinn eigi að fá kaupverðið að mestu að láni hjá íslensku bönkunum í formi kúluláns með einungis 1,5% vöxtum. Verður það til þess að bæta hag þeirra? Til samanburðar hefur verið rætt um að við getum ekki vænst lægri vaxta en 5,5% vegna óreiðu Sjálfstæðisflokksins á liðnum árum við að koma í veg fyrir að Icesave vitleysan hefði komið okkur í þann bobba sem kunnungt er og er sú deila enn galopin og ekki verið tekin nein ákvörðun um það. Orkulindir landsmanna hafa verið alla liðna öld í eigu og forsjá okkar sjálfra. Við höfum þekkingu og reynslu til að beisla jarðvarmann sem og að nýta sem best þessa orku.
Við eigum ekki að þurfa að leita til erlends braskfyrirtækis sem í eðli sínu lítur á þetta sem afburða gott viðskiptatækifæri og lítur á orkulindir landsmanna eins og hverja aðra féþúfu. Jón Þórisson á miklar þakkir skildar. Við vonum að þetta hneyksli sem tengist þessu Magma braski verði okkur til varnaðar og kenni okkur að við eigum ekki að dansa eftir fagurgala þeirra stjórnmálamanna sem dýpst eru sokknir í spillingu liðinna ára.
Baráttukveðjur,
Guðjón Jensson Mosfellsbæ