NÚ ER ÞÖRF Á AÐGERÐA-STJÓRNMÁLUM
Hverjum hefði dottið það í hug fyrir örfáum mánuðum síðan að
SKJALDBORGIN margumtalaða skyldi slegin utan um úlfagráðug
fjármálafyrirtækin í landinu. Ég eins og eflaust flestir taldi að
þarna væri rætt um SKJALDBORG fyrir barin og margskattpíndan
alþýðumanninn. Það er alveg ljóst að viðskiptaráðherra er
skipstjórinn á skútunni í dag, þau hin títtnefnd tvö hafa að
sjálfsögðu löngu framselt vald sitt til slíks. Það er sorglegt að
horfa uppá þingmenn VG hamast við að virkja sjálfseyðingarforritið.
Þeir munu ekki geta treyst á gullfiskaminni litla mannsins lengur
þar sem stærri faktorar með vel uppfært innra minni munu svo
sannarlega láta til sín taka þegar kemur að endurnýjun umboðs
þingmönnum til handa. Úthrópun samstarfsflokkanna er algjör. Þeir
kenna sig báðir við sósíaldemókratíska hugsýn, en það skal vera á
hreinu að löngu framgengnir forvígismenn þeirrar hugmyndafræði hafa
marg snúið sér við í gröfum sínum, alla vega rúmaðist hugtakið
knésetning öreiganna ekki innan þeirrar merkingar. Ögmundur, ég vil
meina að það dugi ekki að stinga niður penna, það eru bara kurteis
samræðustjórnmál, ég held að þú sért maðurinn sem munir iðka
aðgerðastjórnmál framtíðarinnar. Ef það reynist ekki rétt þá er
bara að halda áfram að skrifa.
Kv.
Óskar K Guðmundsson, fisksali.