HARÐARI TÓNN

Sæll Ögmundur.
Mig langar til að vekja athygli þína á þeim eðlismun sem er á mótmælunum sem efnt var til við Seðlabankann í dag og upphafi mótmælanna í búsáhaldabyltingunni. Eðlismunurinn kemur fram í þeim harða tóni sem nú er í andstæðingum fjármálafyrirtækjanna, miklu harðari tóni. Ég var á Austurvelli haustið 2008 og ég var við Seðlabankann í dag. Guð hjálpi þeim stjórnvöldum, forystumönnum VG og Samfylkingar, sem hafa egnt fyrir fólkið gildru með dyggri aðstoð Alþjóðagjaldseyrissjóðsins sem það verður svo látið lenda í. Er útilokað að þið almennir þingmenn sem segist styðja ríkisstjórnina látið sverfa til stáls, standið með fólki en ekki fjármálafyrirtækjum, og setið Jóhönnu og Steingrím (og Gylfa) hreinlega á pensjón? Það verður að hafa vit fyrir óvitum. Engin ríkisstjórn hefur fengið jafn góðar viðtökur og sú sem nú situr, en engin hefur glutrað niður stuðningi kjósenda á jafn skömmum tíma og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Er enginn í þessum 34 manna hópi þingmanna stjórnarflokkanna sem sér klæðalausan keisarann?
Jóna Guðrún

Fréttabréf