Fara í efni

HANDVÖMM

Það er einkennilegt að nú loksins eftir að í ljós kom hvernig saumaskap og frágangi á lausum endum var fyrir komið af hálfu iðnaðarráðherra að þá skuli loksins haldið á lofti að nú muni reyna á flokkssamþykktir um auðlindir í eigu þjóðar. Væri ekki eðlilegt að slíkt hefði verið gert í upphafi málsins.
Menn vissu að um skúffuna góðu var um að ræða. Það þýðir lítið í mínum huga að öskra og veina og benda á iðnaðarráðherra, það má vera að hún hafi setið á svikráðum við þjóðina og kortlagt aðferðafræðina en ennþá lélegra þykir mér að málinu skuli samt sem áður vera veitt fullt brautargengi af hálfu VG og það þykir mér vera hroðaleg handvömm.
Taktu eftir Ögmundur minn kæri, einhvern veginn mun samstarfsflokknum takast að sleppa frá þessu og jafnvel verður endanleg útkoma sú að þingmönnum VG muni hafa verið þetta fullljóst frá upphafi. Spunameisturum samstarfsflokksins mun ekki leggjast undir höfuð að hlutgera aðgerðina jafnt, báðum flokkum til mismikils tjóns.
Hins vegar endurtek ég það sem ég hef áður sagt; íslenzkir rekstrarmenn eru nú ekki einhverjir sem beinlínis eru hafðir til eftirbreytni svona yfir höfuð þannig að ég get ekki séð að það verði verra að fá erlenda rekstrarmenn að sviðinu.
Allavega teldi ég það ekki fýsilegt til árangurs að veifa og baða út öllum skönkum með látum, þannig verður hvorki farið um lönd né strönd.
Óskar K Guðmundsson, fisksali