GÆSLUMENN EFNAHAGS-STÖÐUGLEIKANS

Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og fulltrúi Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra Jóhönnu Sigurðardóttur, segja skýran dóm Hæstaréttar í myntkörfumálinu ógna efnhagsstöðugleikanum íslenska og hafa því ákveðið hvaða vexti hin ólöglegu lán skuli bera, þrátt fyrir samninga um annað. Ekki þarf að taka fram að þeir Gunnar og Már (Arnór) eru einmitt embættismennirnir sem áttu að tryggja að fé á Íslandi væri ekki lánað út á sikileyskum forsendum. Ekki skrítið að þessum gæslumönnum efnahagsstöðugleikans skuli nú hafa runnið blóðið til skyldunnar.   Það er raunar einkennilegt að gæslumennirnir skuli ekki hafa séð ástæðu til þess, þegar horft er til efnahagsstöðugleikans, að gera athugasemdir við það þegar 16 milljarðar voru settir í Sjóvá, þegar 26 milljarðar voru settir í Verðbréfastofuna, og þegar 15 milljarðar runnu til Saga Capital, allt á takk bærilegri vöxtum en gæslumenn efnahagsstöðugleikans telja sanngjarnt að heimilin greiði nú af hinum ólöglegu lánum.   Þeir Gunnar og Már taka með tilmælum sínum starfstengda áhættu sem væri talin talsverð ef þeir hefðu ekki tryggingu fyrir því að vera í skjóli framkvæmdavaldsins fram yfir haustmánuði. Þeir keppast enda við að undirstrika að þeir hafi tekið "sjálfstæða ákvörðun".   Þeir tönnluðust á þessu í gær og þetta sagði Gunnar Andersen í ágætum útvarpsþætti á Bylgjunni í morgun, "þetta er sjálfstæð ákvörðun okkar". Merkilegt að tilmælin flísfalla að skoðun viðskiptaráðsherrans og ósýnilega gáfumannsins sem aðstoðar Samfylkinguna, þegar upp koma alvarleg peninga- og hagstjórnarmál.   Gylfi Magnússon, ráðherra með stóru R-i, missti út úr sér eftirfarandi í hádegisfréttum útvarps framkvæmdavaldsins í gær: "Þetta er hins vegar ákveðin fyrirmæli sem að fjármálafyrirtækin gefa um það hvernig á að fara með þetta í allra næstu framtíð þangað til skorið verður úr þeirri óvissu sem uppi er." Stuðningurinn við fjármálafyrirtækin getur vart orðið skýrari en hér kemur fram. Eftir ríkisstjórnarfund í gær hét það: "Ríkisstjórnin virðir sjálfstæði Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og ber fullt traust til þessara stofnana við að sinna lögbundnu hlutverki sínu."   "Sjálfstæðið" sem hér er talað um hefur öðlast alveg nýja merkingu í ljósi orða Gylfa Magnússonar að ekki sé minnst á orð fulltrúa Más Guðmundssonar í hádegisfréttum framkvæmdavaldsútvarpsins í gær þegar hann sagði: "Við höfum auðvitað skýrt stjórnvöldum frá okkar ákvörðun, við höfum rætt þetta ítarlega við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og gerum ráð fyrir að hann muni styðja þessa ákvörðun." Þessa algjörlega "sjálfstæðu" ákvörðun!! Í hvaða lagabálki segir að vaxtakjör skuli rædd sérstaklega við Mark Flanagan, hirðstjóra kapítalismans á Íslandi?   Gunnar Andersen sagði í morgunþætti Bylgjunnar, þegar hann var spurður um það hverju það sætti að FME hefði ekki gert athugasemdir við ólöglegu lánin, að hundruð löfræðinga hefðu á níu árum ekki gert athugasemdir við hina ólöglegu lánastarfsemi. Í framhaldinu spurði Sólveig umsjónarmaður um hvort hér ættu í hlut lögspekingarnir sem kvittað hefðu upp á lögmæti tilmæla þeirra Gunnars og Más að þessu sinni.   Jú, einhvejir þeirra voru áfram í þessum hópi og "fjölmargir lögfræðingar úr stjórnsýslunni". Athyglisvert, stjórnsýslunni. Ætli þeir séu kannski úr forsætisráðuneytinu, eða fjármálaráðuneytinu, eða viðskiptaráðuneytinu? Ef svo er öðlast hin "sjálfstæðu" tilmæli alveg nýja merkingu.   Nú skora ég á þig Ögmundur, og Sólveigu á Bylgjunni, sem bar fram spurninguna til Gunnars í morgun, að sækja ykkur á grundvelli upplýsingalaga, og nefndarsetu á Alþingi, afrit af öllum bréfum og tölvupóstsamskiptum "stjórnsýslunnar" við Seðlabanka og FME, öllum bréfum og tölvupóstsamskiptum milli Seðlabanka, FME og viðskiptaráðuneytisins, og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þá þarf að upplýsa um alla fundi sem nefndir aðilar hafa átt sín á milli, með fulltrúum fjármálafyrirtækja og fulltrúum akademíunnar þar sem rætt hefur verið um ólöglegum lánin, og hvaða einstaklingar sóttu þessa fundi. Fundargerðir af fundunum mættu svo fylgja með og minnisblöð frá tveimur háskólakennurunum. Upplýsingar af þessu tagi gætu hugsanlega skýrt undarlegar yfirlýsingar Gylfa Magnússonar síðustu tvær vikurnar og opinber birting upplýsinganna gæti orðið dæmi um það sem "norræna velferðarstjórnin" leggur ríkasta áherslu á, opna stjórnsýslu, - að allar upplýsingar upp á borðið í þágu almennings.   Kv.
Ólína

Fréttabréf