Fara í efni

EITT LÍFEYRISKERFI FYRIR ALLA

Í nær 40 ár hef ég talað fyrir því að einu lífeyriskerfi yrði komið á fyrir alla landsmenn. Allan þennan tíma hef ég talað fyrir þunnum eyrum á vettvangi atvinnulífsins er ég hef sagt frá þeirri skoðun minni að greiðslur launamanna í lífeyrissjóði væru hreinar skattagreiðslur, enda lögbundnar greiðslur. Nú hefur AGS gengið í lið með mér í þessu efni. M.ö.o. „sérfræðingar AGS segja augljóst að líta verði á greiðslur í lífeyrissjóði sem skattgreiðslur til að bera saman milli landa".
Ekki veit ég hvort þeir reikna með svonefndum 4% stigum og eða allri greiðslunni sem er í dag 12% af öllum launum launafólks. Það er auðvitað grundvallaratriði að það verði upplýst. Þá er vert að benda á þá staðreynd, að launamenn geta ekki valið í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða. Þá er mikilvægt að það verði upplýst einnig hvort aðrar greiðslur launamanna séu með í þessum útreikningum og fram kemur hér síðar. Í ljós hefur komið nú eftir hrunið, að ríkissjóður veitir ekki sjóðfélögum almennu sjóðanna neina tryggingu og eða ábyrgð á því að launamenn sem greiða samkvæmt lagalegri skyldu fái síðan eðlilegar endurgreiðslur.
Þá eru svonefnd „tryggingagjöld" einnig skattur ásamt öðrum umsömdum greiðslum af hálfu stéttarfélaganna við atvinnurekendur sem fara í orlofssjóði, sjúkrasjóði og í endurmenntunarsjóði. Þetta eru um 1,5% af launum auk tryggingagjaldanna. Þá ætluðu „aðilar" á vinnumarkaði sér enn frekari skatt af launum launamanna í endurhæfingardæmi eitthvert. Þegar allt er talið, nálgast þessi skattur að vera 15 - 16% flatur skattur.
1980 var atvinnurekendum gert skylt að greiða fyrir sig í lífeyrissjóð, en sú framkvæmd er öll í skötulíki og í raun greiða nánast engir atvinnurekendur í bindandi lífeyrissjóð eins og launamönnum er gert skylt að gera. Þeir eru tekjulausir. Þar kemur einnig inn í einkahlutafélagakerfið, þar sem atvinnurekendur eru fjármagnseigendur í þessum fyrirtækjum og greiddu um langann aldur aðeins 10% í skatt af tekjum sínum auk þess sem þeir tóku út neyslufé út úr rekstrinum. Ef allar þessar greiðslur væru teknar með í heildar skattadæminu, er ekki nokkur vafi á því, að engir launamenn greiða hærri skatta en íslenskir launamenn. Skattbyrðin hér á landi er sögð svipuð og í Danmörku (Vísir.is)
Það er enginn vafi á því, að það væri mikið hagkvæmara fyrir launamenn að í landinu væri einn lífeyrissjóður í vörslu t.d. tryggingastofnunar og allir landsmenn greiddu í hann með sínum tekjusköttum. Bara það, að ef ríkissjóður fengi tekjuskattstekjur af þessum 16% er það eitt og sér gríðarlega há upphæð og væntanlega myndu skattahækkanir vegna þessa fyrirkomulags vera mun lægri en greiðslur launamanna eru nú í þessa spillingarhýt.
Launamenn báðu ekki um lífeyrisjóðakerfi á 7. áratugnum, þeir kröfðust eftirlaunakerfis og það er hið eina rétta í eftirlaunamálum íslendinga. Síðan brennur á fólki sú áleitna spurning:
Í hvað fara allir þessir skattar? Ekki hafa þeir allir farið í félagslega velferðarkerfið.
Kristbjörn Árnason