BIRTIÐ NÖFNIN

Sæll Ögmundur.
Íslensku bankarnir grófu sér sína eigin gröf og margra viðskiptavina sinna og urðu gjaldþrota. Nýju bönkunum stjórna þó enn margir þeirra sem í þeim eldri sátu og flestir starfsmanna eru úr gömlu bönkunum. Þar ríkir því miður enn sami hrokinn og áður gagnvart þeim sem standa illa. Þar er veifað framan í menn keyptum upplýsingum frá skítafyrirtækjum eins og Lánstrausti og sagt: 50.000 kr. yfirdráttarheimild!? Ó, nei góði minn! Það kemur mér ekkert við hvort þú getur gefið börnunum þínum að borða eður ei. Reglur bankans eru svona. Og engu skiptir hvort viðkomandi hafi átt í áratuga viðskiptum við bankann eða velt þar umtalsverðu fé.
Menn skyldu varast að kasta steinum úr glerhúsum. Hvernig væri nú að Lánstraust tæki saman afrekaskrá fyrir almenning um rekstur bankanna á síðustu árum og þar yrðu tíunduð nöfn stjórnenda og starfsmanna sem sátu í þeim fyrir þrot og eftir þrot? Hvers vegna ættum við að eiga viðskipti við þetta fólk? Ekki virðist það hafa lært snefil af umburðarlyndi sjálft.
Jóhann G. Frímann

Fréttabréf