Fara í efni

VARLEGA VERÐI FARIÐ MEÐ VALDIÐ

Það má aldrei gleymast að þeim sem er falið umboð til að ráðstafa opinberum fjármunum verða að fara vel með það vald og svara til ábyrgðar. Í samhengi þess þótti mér vænt um að sjá fyrirspurn frá Eygló Harðardóttur um hvernig ríkið gætti hagsmuna sinna eftir að hafa sett 12 milljarða til að bjarga Sjóvá frá gjaldþroti (http://www.althingi.is/altext/138/s/1402.html) . Mér þótti minna vænt um að sjá röksemdafærsluna. Þar segir um það bil orðrétt að vegna stærðar og markaðshlutdeildar Sjóvár hafi ekki þótt æskilegt að hin tryggingafélögin á markanum myndu taka við rekstrinum. Nú er ég á móti einokun og allt það. En þegar einkafyrirtæki á samkeppnismarkaði fer á hausinn þá þarf að setja fram kraftmeiri rök fyrir því að leggja fram sem nemur meiri en allur rekstur Háskóla Íslands kostar á ári. Allt samfélagið skelfur venga niðurskurðarkröfu í ríkisfjármálum þar sem við vitum að opinber þjónusta mun skerðast þar sem síst skyldi. Nú er mikið rætt um samdrátt í opinberum framkvæmdum vegna niðurskurðar. Skv. fjárlögum 2010 minnkar framlagið úr 21 milljarði í 9 milljarða milli ára. Við eyddum þessu öllu í að halda glæpafélagi á floti - vegna þess að það var ekki "æskilegt" að það myndi hætta rekstri. Ég hefði viljað sjá rök ráðherrans vísa í meiri nauðsyn með hliðsjón af stærðargráðu útgjaldanna.
Gústaf