Fara í efni

TVÍSKIPTING VALDSINS

Sæll Ögmundur.
NBI, Landsbankinn, og Arion banki (Kaupþing) eiga þau tvö bílalánsfyrirtæki sem stærst eru, SP fjármögnun og Lýsingu. Landsbankinn er ríkisbanki með ríkisbankastjórn, hinn bankinn er í "eigu kröfuhafa" sem svo eru nefndir. Í ljósi viðbragða flokksleiðtoga við skýrum dómi Hæstaréttar, síðast í spjallþáttum á þessum morgni, er freistandi að reyna að greina, hvort fjármálastofnanir eiga hlut í stjórnmálamönnum, en það verður ekki gert hér. Yfirlýsingar fjögurra ráðherra um sama dóm Hæstaréttar eru einnig þess eðlis að menn hljóta að draga þá ályktun, að skólaganga sé hvorki menntun, né sérstaklega næmur skilningur fyrir því sem hófst hjá Montesquieu og kallast víða þrígreining valds. Í Svíþjóð skilgreina menn þetta öðru vísi en þar kalla menn fjölmiðlana til dæmis um þriðja valdið, enda telja þeir dómsstólana þar í landi ekki með í greiningu sinni.

Hérlendis hafa menn í orði kveðnu komið sér upp löggjarvaldi, framkvæmdavaldi og dómsvaldi. Árum saman hefur legið fyrir að umtalsverð lánastarfsemi hefur farið hér fram sem var ólögleg. Enginn á löggjafarþinginu, sem meðal annars á að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu og stofnunum þess, hefur í alvöru gert athugasemdir við hina ólöglegu lánastarfsemi. Gæti verið að himinháir styrkir fjármálafyrirtækja við einstaklinga og flokka hefðu hér einhver áhrif? Vonandi ekki. Enginn handhafi framkvæmdavaldsins hefur gert athugasemdir við hina ólöglegu starfsemi. Hvorki fyrir, né eftir að "norrænu velferðarstjórninni" var komið á fót. Það er greinilegt að framkvæmdavaldið hefur almennt séð ekki hugmynd um hvað norrænt er og alls ekki hvað velferðarstjórn þýðir og skilur þar af leiðandi hvorki upp né niður í því sem fjallað er um á öllum samráðsfundunum á vettvangi norrænnar samvinnu.

Framkvæmdavaldið, "norrænt" og ekki "norrænt" tekur alltaf  afstöðu með hinum sterka. Ekki af því hann hafi endilega rétt fyrir sér heldur vegna máttar hans og megins. Framkvæmavaldið hefur ekki döngun í sér til að standa með fólki og gefa til dæmis út leiðbeiningar og setja reglur sem fyrirtækin, sem telja á sér brotið með reglusetningunni, þyrftu þá að sækja fyrir dómi. Framkvæmdavaldið gerir ekkert fyrir fólk annað en að segja og benda á hin augljósa, "menn geta náttúrulega farið í mál til að sækja rétt sinn". "Norræn velferðarstjórn", "norræn nálgun", nei það er af og frá.

Yfirlýsingar ráðherra uppá síðkastið staðfesta að hér á landi er verið að búa til alveg splunkunýja samfélagstegund, tvískiptingu valdsins. Annars vegar er löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið, fjármálafyrirtækin, fjölmiðlarnir og háskólarnir, en hins vegar almenningur, forsetinn og Hæstiréttur. Athyglisverð skipting sem til dæmis varpa sérstöku ljósi á afstöðu framkvæmdavaldsins ("norrænu velferðarstjórnarinnar"), háskólasamfélagsins og fjölmiðlanna til forseta Íslands. Athyglisverð skipting, sem skýrir til dæmis hugmyndir manna um "þjóðstjórn". Hvað er enda þjóðstjórn? Staðfesting á að öllu valdi, nema valdi fólksins, forsetavaldi og valdi Hæstaréttar, sé undið upp í hnykil til að enginn geti séð hvar spottin byrjar og endar. Ætli menn hafi atkvæðis- og skoðanarétt undir Þjóðstjórn?

En hvað gerum við þá, sauðsvartur almúginn? Við getum aftur farið á Austurvöll til að koma frá sitjandi ríkisstjórn. Við getum mótmælt við tiltekin ráðuneyti. Við getum látið reyna á umboðsmenn viðskiptamanna bankanna. Við getum depónerað greiðslum af bílalánunum til að byrja með. Það eru margir leikir í stöðunni, en áhrifamátturinn fer eftir því hve mörg við að endingu verðum.

Lang áhrifaríkustu aðgerðirnar gegn þeim sem nú vilja hunsa Hæstarétt er að rífa út allt það fé sem menn eiga í Landsbankanum og Arion banka og flytja það annað eða hafa það undir koddanum í sex til átta vikur, en í því liggur hótunin um að setja þessa tvo banka á hliðina. Það er að segja að gera eins og Davíð Oddsson gerði gagnvart Búnaðarbankanum forðum daga. Ég legg til að menn geri þetta. Kennum þeim mannasiði, talsmönnum hins nýja Íslands, talsmönnum tvískiptingar ríkisvaldsins.
kv.
Ólína