Fara í efni

VERÐUM AÐ ÞORA

4 árgangar Íslendinga eru atvinnulausir. Þorir þú að hafa skoðun? Meiriparturinn ungt fólk á besta vinnualdri, fólk með börn í framfærslu. Það fólk sem nú er elst á vinnumarkaði hefur að stórum hluta verið þar frá 13 ára aldri, þar er ég að tala um fólk sem er á aldrinum 65 til 70 ára gamalt og er enn að störfum. Stór hluti af þessu fólki er þegar orðið lasburða og myndi taka því fegins hendi að geta hætt störfum og farið á eftirlaun. Þá er einnig staðan sú, hjá vel flestum á þessum aldri, að það þarf ekki há laun. Það býr gjarnan í skuldlitlum íbúðum, ekki sjaldan í of stórum íbúðum og það getur ef eftirlauna fyrirkomulaginu yrði breytt á þann veg að það geti farið fyrr á eftirlaunum sem nemur t.d. tveimur árum eða frá 65 ára aldri, þannig rýmt fyrir unga fólkinu á vinnumarkaði. Það hefur orðið sú kollsteypa á Íslandi, að hún lagast ekki sjálfkrafa. Það er borin von til þess að Íslendingar geti lengur haldið uppi atvinnulífi með sífelldum skyndilausnum. Eins og þeim sem aðilar á vinnumarkaði hrópa á í sífellu. Þeir hrópa á fjárfrekar fjárfestingar með miklum fórnum á erfðarauðævum framtíðar Íslendinga. Fjárfestingar sem ekki gefa af sér nægjanlegan arð og skila ekki af sér áframhaldandi atvinnu uppbyggingu. Eina skynsamlega lausnin nú, er sú að gamla fólkinu gefist kostur á því og það verði hvatt til þess að hverfa af vinnumarkaði með reisn til þess að unga fólkið með óskerta starfskrafta og oft með mikla menntun komist að til að vinna og greiða skatta. Gamla fólkið greiðir litla skatta. Það er merkilegt með Íslendinga, að þegar einhver leggur fram róttækar hugmyndir sem allir vita að eru því miður nauðsynlegar þorir enginn að segja sína skoðun. Við verðum að þora að taka málið til umræðu. Ekki er betra að bíða endalaust og láta atvinnuleysið fara úr öllum böndum. Það getur ekki verið nein dyggð í því fólgin að taka vinnuna frá unga fólkinu, því fólki sem er með börn á framfæri.
Kristbjörn Árnason