Fara í efni

RANGHUGMYND

Ég sá þú skrifaðir um ummæli Magnúsar Orra alþingismanns um að þeir sem vildu ekki semja um Icesave bæru ábyrgð á að 3.300 einstaklingar yrðu atvinnulausir. Þessi tala kemur að sjálfsögðu úr sömu smiðju og milljarðarnir 75 sem þú nefndir í pistli um daginn. Samlíkingin er sláandi. Tveim valkostum er stillt upp. Í öðrum er samið um Icesave og þá fellur allt í ljúfa löð. Í hinum er ekki samið um Icesave og þá erum við föst í úlfakreppu. Magnús Orri vitnar í starfsmenn Seðlabankans og vísar til valkosta -a og -b. Skv. túlkun Magnúsar verður hægt að afnema gjaldeyrishöft og lækka vexti eftir að samið er um Icesave. Semsagt - þegar samið er um Icesave næst jafnvægi í þjóðarbúskapnum eins og fyrir kraftaverk. Öll þessi röksemdafærsla byggir á sömu meinlokunni. Við þurfum erlenda fjárfestingu til að koma hjólum atvinnulífisins af stað. Til þess að njóta erlendrar fjárfestingar þurfum við tiltrú erlendra fjárfesta. Við fáum tiltrú þeirra um leið og samið verður um Icesave. Þetta er náttúrulega ein stór ranghugmynd sem hefur ekkert með raunveruleikann að gera. - og einn punktur enn. Er ekki verið að semja um Icesave? Eru þessir fuglar að lýsa vantrausti á núverandi samninganefnd undir stjórn Lee Bucheits eða vilja þeir að hann semji um hvað sem er bara ef það er strax?
Árni V.