RÁÐHERRAÁBYRGÐ OG STJÓRNARSKRÁIN

Þú bendir á að Björgvin G. Sigurðsson hafi verið gerður að blóraböggli fyrir vandamál sem á rætur sínar mun víðar. Það er vissulega rétt að ekki eigi að hafa menn fyrir rangri sök, og því er sú reglan viðhöfð að álíta menn saklausa uns sekt er sönnuð. En sú regla tíðkast ekki hjá dómstóli almenningsálitsins, og því er mikilvægt að það sé ekki sá dómstóll sem kveður upp endanlegan úrskurð. Ákæra er ekki dómur, og það hlýtur að vera eðlilegt að maður sem er borinn alvarlegum ásökunum fái tækifæri til að verja sig gegn þeim, með fullri vitneskju um öll málsgögn. Íslensk stjórnskipan er með þeim hætti að til að Björgvin fái tækifæri til að verja sig þannig verður Alþingi að samþykkja ákæru á hendur honum. Verði það ekki gert hlýtur almenningur að álykta sem svo að ráðherrar séu ábyrgðarlausir á stjórnarathöfnum - andstætt því sem segir í stjórnarskrá.
Herbert Snorrason

Fréttabréf